Húrra! Leikarar í helstu hlutverkum í Óliver! í lokin. Stjörnur þessarar sýningar eru Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórir Sæmundsson. Fimm stjörnu frammistaða hjá Vigdísi Hrefnu, segir leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins.
Húrra! Leikarar í helstu hlutverkum í Óliver! í lokin. Stjörnur þessarar sýningar eru Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórir Sæmundsson. Fimm stjörnu frammistaða hjá Vigdísi Hrefnu, segir leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frumsýning 26. desember 2009. Þýðing: Þórarinn Eldjárn. Þýðing söngtexta: Jóhann G. Jóhannsson Leikstjórn: Selma Björnsdóttir. Tónlistarstjórn: Jóhann G. Jóhannsson. Danshöfundur: Aletta Collins. Búningar: María Ólafsdóttir.

Frumsýning 26. desember 2009. Þýðing: Þórarinn Eldjárn. Þýðing söngtexta: Jóhann G. Jóhannsson Leikstjórn: Selma Björnsdóttir. Tónlistarstjórn: Jóhann G. Jóhannsson. Danshöfundur: Aletta Collins. Búningar: María Ólafsdóttir. Leikmynd og myndvinnsla: Vytautas Narbutas. Lýsing: Lárus Björnsson og Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðstjórn: Ísleifur Birgisson og Tómas Freyr Hjaltason. Sýningastjóri: Kristín Hauksdóttir.

Það væri lítilsvirðing við vel upplýsta – og vel lesna – lesendur Morgunblaðsins að byrja þennan leikdóm á því að rekja söguna um Oliver Twist, þann hjartahreina dreng sem Charles Dickens skapaði svo snemma sem árið 1837. Allir vita að Oliver litli lendir munaðarlaus og hrakinn í höndunum á vondu fólki og enn fleira vondu fólki uns skárri persónur koma honum til bjargar og að lokum í heila höfn – en þá hafa líka miklar hörmungar gengið yfir; almenn mannvonska, manndráp og annar voði. En, líka glóir á gimsteina í mannsorpinu – sem betur fer, fyrir Oliver!

Það er í mikið ráðist þegar söngleikurinn Oliver! er sviðsettur og það sýnir svikalausan metnað að ráðast í þetta barnmarga sjónarspil. Sjálfsagt fitja nú einhverjir upp á trýnið enda fjölmargir þannig innréttaðir að þeim finnst ekki mikið bragð að barnamenningu (nema í ákveðnum hillum, neðarlega) og allra síst ef hún hefur stimpil frá West End. En sá sem hér hefur orðið gefur ekkert fyrir slíkt og hrópar húrra fyrir Oliver! Þjóðleikhússins á jólum árið 2009!

Selma Björnsdóttir leikstýrir og sá ég ekki mikla hnökra á hennar vinnu, dansarnir sem Aletta Collins semur renna ljúflega undir öruggri stjórn leikstjórans. Hópatriði eru flott og full af skemmtilegum hugmyndum og aginn og stjórnin á öllum litlu (mögulegu) senuþjófunum til fyrirmyndar. Það var helst að framsögn rynni til hér og þar en þar getur líka frumsýningarstreitu verið um að kenna og var þetta ekki stórt vandamál. Ég skrifa einnig á frumsýningarspennu að einstaka leikarar voru nokkurn tíma að koma sér í gang. En kannski hefði leikstjóri mátt vinna betur maður á mann til að skerpa sumar smærri rullurnar.

Tónlistarstjórn er í öruggum höndum Jóhanns G. Jóhannssonar, músíkin var flott úr gryfjunni og tónaflóðið sagði manni að hér væru á ferð ekta tónlistarmenn að spila alvöru tónlist.

Búningar Maríu Ólafsdóttur eru sögulega réttir, fallegir og negla sviðið niður í tíma. Litir segja sitt: Hörmungar fátæktarheimilisins eru grátóna garmar, Bill Sikes er kaldur leðurklæddur töffari, á meðan Nansý er rauðleit hlýjan sjálf.

Vytautas Narbutas fer létt með að taka okkur til London þessa tíma, sviðið er vel nýtt. Og af því að London er eins og London er, þá er öldungis nóg að hafa múrsteininn kaldan og bogadreginn og múrsteininn hlýjan og bogadreginn til skiptis – það er London. Og svo þarf auðvitað smá dekórasjón svo sem bækur og bjórtunnur á réttum stöðum, myndir af Thames og seglskipi frá Onedin skipafélaginu. Narbutas ætlar sér ekki þá dul að gera London flóknari við Hverfisgötuna en hún er í raun og veru – það er vel.

Lýsing Lárusar Björnssonar og Ólafs Ágústs er mjög vel heppnuð, hún fylgir eftir sögunni – hér er ekki reynt að gera neinar gloríur enda myndi það ekki passa.

Engar athugasemdir hef ég við þýðingu Þórarins Eldjárns og Jóhanns G. Jóhannssonar, alltént sker ekkert í eyru; textinn er þýður og íslenskan góð.

Tveir drengir skipta með sér hlutverki Olivers, á frumsýningu var það Ari Ólafsson sem lék. Ari fór ljómandi vel með sitt og var hrein unun að hlusta á hann syngja. Reyndar býður hlutverk Olivers ekki upp á stórfengleg tilþrif í leik – hann er góði gæinn, þessi sem lífsreyndir leikarar forðast.

Sömuleiðis eru tveir strákar um að leika Hrapp, Tryggvi Björnsson var á sviðinu á frumsýningunni. Tryggvi var góður, hinn kotroskni bragðarefur lifnaði í meðförum hans – og eitthvað í augunum á leikaranum unga sagði mér að hann hefði ekki alltaf þurft að grafa djúpt eftir prakkaraskapnum.

Eggert Þorleifsson er Fagin. Mér fannst Eggert nokkuð ryðgaður í sinni fyrstu senu en svo liðkaðist það allt og hann sótti jafnt og þétt í sig veðrið og hafði að lokum unnið hug og hjörtu frumsýningargesta. Og ég er svo illa innrættur að mér var farið að þykja vænt um gyðinginn.

Bergþór Pálsson og Þórunn Lárusdóttir voru líkt og Eggert nokkuð stíf í byrjun en svo lagaðist það, Bergþór er auðvitað frábær söngvari og ágætur leikari. Þórunn var best þegar gribbugangurinn var sem mestur og ágirndin tærust.

Herra Sowberry útfararstjóri var í góðum höndum Friðriks Friðrikssonar sem kom mér á óvart með ágætum söng. Eitthvað fannst mér vanta í túlkun Estherar Talíu Casey sem lék eiginkonu útfararstjórans, nógur var pilsaþyturinn en það er enn meiri óþverri í þessari kellingu! Álfrún Örnólfsdóttir lék dóttur þeirra og Nóa Clypole lék Ívar Helgason, tvö smá hlutverk sem fengu þokkalega meðferð.

Arnar Jónsson slær á kunnuglega strengi sem Brunlow – átakalaust dregur Arnar upp mynd af traustum manni úr efri stétt. Ragnheiður Steindórsdóttir leikur þjónustu hans og fer vel með lítið, skapar hlýju úr litlu. Það er list.

Aðrir leikarar í smáum hlutverkum fara vel með sitt, Val Frey Einarssyni brá fyrir sem kráareiganda og Lilja Guðrún er hér í hlutverki Sallyar sem geymir svarið um uppruna Olivers, þau voru bæði sannfærandi. Sömuleiðis Edda Arnljótsdóttir og Baldur Trausti. Ólöf Jara Skagfjörð er efni, hún leikur Betu vinkonu Nansýar og gerir vel. Í heildina verður þó að segjast að flest allar þessar „smáu“ rullur hefði leikstjórinn mátt fægja betur. Í þeim öllum býr ögn meira.

Stjörnur þessarar sýningar eru Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórir Sæmundsson. Ég hafði efasemdir þegar ég sá að Þórir átti að leika Bill – en þær efasemdir rak hann öfugar ofan í mig við fyrstu innkomu. Ógnin og óþverrahátturinn lak af honum, hann söng vel og allt hans fas og framganga var með hreinum ágætum. Þó verð ég að geta þess að hundleysi hans pirraði mig! En, auðvitað á Þórir ekki sök á því. Vigdís Hrefna fór á kostum sem Nansý – öfugt við Þóri þá hafði ég engar efasemdir um Vigdísi. Því varð hún að standa sig – ég hafði væntingar (sem er nú alltaf hálf djöfullegt). En, Vigdís Hrefna stóð undir þeim öllum og gott betur – fimm stjörnu frammistaða hjá henni!

Ferð á Oliver! er fín byrjun á bókmenntalegu uppeldi; hér er Dickens vissulega klipptur og skorinn. En eftir leikhúsferð má svo kaupa bókina í ágætri þýðingu, læsa tölvuna inni í skáp, ná á heimilinu upp heraganum hennar Selmu og hefja lesturinn. Það getur bara orðið til góðs. En ef þetta gengur ekki – nú, þá bara aftur á Oliver!

Guðmundur S. Brynjólfsson