Bílasala Hnupl á bílnúmerum hefur aukist á árinu og eru stolnu númerin oft notuð við bensínþjófnað.
Bílasala Hnupl á bílnúmerum hefur aukist á árinu og eru stolnu númerin oft notuð við bensínþjófnað. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur annaei@mbl.is NÚMERAPLÖTUR, hjólkoppar, rúðuþurrkur og bensín er meðal þess sem hverfur af bifreiðum á bílasölum í skjóli nætur.

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

NÚMERAPLÖTUR, hjólkoppar, rúðuþurrkur og bensín er meðal þess sem hverfur af bifreiðum á bílasölum í skjóli nætur. Nokkuð misjafnt virðist vera eftir umboðum hvaða munir eru eftirsóttastir og þó að enginn þeirra sem rætt var við teldi um verulegt vandamál að ræða, voru allir sammála um að hnupl af þessu tagi hefði aukist í kjölfar kreppunnar.

„Þjófnaður á rúðuþurrkum og hjólkoppum hefur aukist,“ segir Jón Vikar Jónsson, sölustjóri notaðra bíla hjá Toyota, og hjá Heklu, Brimborg og Öskju tóku menn í sama streng. Eitthvað hefur alltaf borið á því að dekkjum og felgum sé stolið og svo er líka nú. Hjá Öskju var t.a.m. stolið dekkja- og felguumgangi af tveimur bílum nú í haust og u.þ.b. 400.000 kr. tjón varð er dekkjum og felgum var stolið af Audi-bifreið hjá Heklu á haustdögum. „Það er slæmt þegar menn mæta á svæðið fullbúnir verkfærum,“ segir Sigurður Pálmar Sigfússon, vörustjóri í Öskju. Þar, líkt og víðar, hafa menn aukið gæslu og lýsingu, og telur hann hafa dregið úr þjófnaði í kjölfarið.

Númerum stolið fyrir bensínáfyllinguna

Töluvert hefur einnig borið á þjófnaði á númeraplötum og hjá Suzuki-umboðinu var bensíni ítrekað stolið af bílum fyrr í haust. „Bensínþjófnaður var ekki algengur fyrir hrun, en það getur einfaldlega verið að einhverjir hafi bara komist upp á lag með þetta,“ segir Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri Suzuki.

Þær númeraplötur sem horfið hafa af bílasölunum hafa raunar margar einnig komið við sögu við bensínþjófnað. Númerin hafa þá verið notuð á bíla sem fyllt er á og svo er ekið á brott frá bensínstöðinni án þess að borga, þetta staðfestir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem segir bílnúmeraþjófnað hafa aukist mikið á árinu. Eitthvað hefur einnig verið um að stolnu númerin finnist á bílum sem notaðir hafa verið við innbrot.

Bílasölurnar fylgjast vel með þeim bílum er úti standa. „Við fylgjumst með svæðinu frá degi til dags og vitum nákvæmlega hvaða bíll er hvar,“ segir Ottó Geir Haraldsson, sölumaður hjá Heklu. Og tilfinning manna er sú að tveir ólíkir hópar standi að hnuplinu. „Við höfum oft haft það á tilfinningunni að það séu sömu krimmarnir sem eru í þessu, en höfum svo sem ekki neinar beinar sannanir fyrir því,“ segir Jón Vikar. Sagðist einn viðmælendanna raunar vera farinn að þekkja göngulag vissra manna í eftirlitsmyndavélinni.

Friðþæging í hnuplinu

Hinn hópinn sem stendur að baki hnuplinu telja menn ekki jafn skipulagðan. Þar sé einfaldlega á ferðinni fólk sem sé að reyna að bjarga sér þrátt fyrir bágar fjárhagsaðstæður. „Það hafa allir hlutir hækkað,“ bendir Jón Vikar á og segir oft ekki þurfa mikið til að menn reyni að bjarga sér með þessum hætti.

„Þetta er fylgifiskur efnahagsástandsins,“ bætir Sigurður Pálmar við. „Það hefur verið farið illa með marga og ein afleiðing þess er að þeim er bara alveg sama. Þá verður þjófnaður á borð við bílahlutaþjófnað að einskonar friðþægingu.“

Í hnotskurn
» Alls hafði verið tilkynnt um 396 þjófnaði á eldsneyti á þessu ári hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hinn 22. desember sl.
» Tilkynnt hafði verið um þjófnað á 114 númeraplötum á sama tímabili.
» 41 ökutæki hafði þá verið skráð stolið á árinu.