Kærleiksjól Hjónin Ester og Wouter þekkja vart öðruvísi jól en kærleiksjól í anda Hjálpræðishersins. Bæði eru þau alin upp innan hans líkt og börn þeirra nú, Aron Daníel, 11 ára, Moira Ruth, 9 ára, og Silje, 7 ára.
Kærleiksjól Hjónin Ester og Wouter þekkja vart öðruvísi jól en kærleiksjól í anda Hjálpræðishersins. Bæði eru þau alin upp innan hans líkt og börn þeirra nú, Aron Daníel, 11 ára, Moira Ruth, 9 ára, og Silje, 7 ára. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur Reykjanesbær | „Þegar fjölskyldan ætlaði að halda venjuleg fjölskyldujól þá grétum við systur, fannst ömurlegt og einmanalegt að vera svona fá á jólunum,“ sagði Ester Daníelsdóttir, kapteinn hjá Hjálpræðishernum...

Eftir Svanhildi Eiríksdóttur

Reykjanesbær | „Þegar fjölskyldan ætlaði að halda venjuleg fjölskyldujól þá grétum við systur, fannst ömurlegt og einmanalegt að vera svona fá á jólunum,“ sagði Ester Daníelsdóttir, kapteinn hjá Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ, í samtali við blaðamann. Hún og eiginmaður hennar, Wouter van Gooswilligen, héldu fyrstu vinajólin í húsakynnum hersins í Reykjanesbæ á aðfangadag, ásamt börnum sínum og sjálfboðaliðum. Þátttakendur voru hátt í 60 frá ýmsum þjóðlöndum. Í dag verður hins vegar jólaskemmtun barnanna í húsakynnum Hjálpræðishersins.

Hjónin Ester og Wouter þekkja vart öðruvísi jól er kærleiksjól í anda Hjálpræðishersins. Bæði eru þau alin upp innan hans líkt og börn þeirra nú, Aron Daníel 11 ára, Moira Ruth 9 ára og Silje 7 ára. Þau sögðu gott að byrja með hefðir þegar börnin væru lítil.

Samveran lengdi jólin

„Ég man þegar við fluttum til Noregs þegar ég var 12 ára, þá ætlaði mamma loksins að hafa hefðbundin fjölskyldujól eftir öll jólin með Hjálpræðishernum í Reykjavík. Við systurnar grétum þegar jólin gengu í garð, fannst samkoman einmanaleg,“ sagði Ester. Hún var að krulla hárið á Moiru þegar blaðamann bar að garði um miðjan dag á aðfangadag þar sem Moira ætlaði að skemmta á vinajólunum með söng og hljóðfæraleik. Öll hlökkuðu þau til jólahaldsins hjá Hjálpræðishernum. Ekki einasta fannst þeim gott að gefa af sér heldur lengdi samveran jólin. „Núna höldum við tvenn jól,“ sagði Aron Daníel því á jóladag borðar fjölskyldan hátíðarmat og opnar pakkana. „Mér finnst alltaf gaman á jólunum og nú verða vinir okkar með okkur,“ sagði Moira Ruth. Silje sagðist hlakka mikið til, en hún var nýstigin upp úr baðinu þar sem hún söng hástöfum uppáhaldsjólalagið sitt, „Jingle bells“, með viðeigandi gusugangi.

Ekki gerlegt án sjálfboðaliða

Ester og Wouter sögðu ekki gerlegt að halda svona vinajól nema með aðstoð sjálfboðaliða. Þau sögðust hafa verið heppin þetta árið á svo margan hátt. „Það var allt á síðasta snúningi og mörgu átti eftir að redda en ég bað Guð um aðstoð og hver gjöfin kom á fætur annarri. Þá buðust hjónin Hjördís Kristinsdóttir, starfsmaður hjá Keflavíkurkirkju, og Yngvi Skjaldarson smiður til þess að aðstoða okkur við undirbúning og Örn Garðarsson hjá veitingaþjónustunni Soho bauðst til að elda matinn í sjálfboðavinnu.“ Ester sagði ánægjulegt að fjölskyldan gæti undirbúið salinn í ró og næði og setið til borðs með gestunum, en auk Hjördísar og Yngva buðust nokkrir sjálfboðaliðar til að aðstoða við framkvæmdina. „Mér finnst aðfangadagur alltaf boða ánægjuleg lok á mikilli vinnutörn,“ sagði Wouter er undanfarnar vikur hefur staðið með jólapottinn í verslunum í Reykjanesbæ og safnað fyrir vinajólunum. Auk þríréttaðrar máltíðar úthlutaði jólasveinn jólagjöfum til gesta á vinajólum, sungið var saman og dansað í kringum jólatré, sem konur í Sinawik færðu Hjálpræðishernum.