Ljóðskáld Dr. Sturla Friðriksson erfðafræðingur sendi nýlega frá sér sína áttundu ljóðabók.
Ljóðskáld Dr. Sturla Friðriksson erfðafræðingur sendi nýlega frá sér sína áttundu ljóðabók. — Morgunblaðið/Eyþór
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is DR. STURLA Friðriksson erfðafræðingur gaf nýlega út áttundu ljóðabók sína og heitir hún Ljóð úr lífshlaupi. Þar birtir Sturla safn lausavísna, limra og stuttra kvæða sem hann hefur ort á ýmsum skeiðum ævi sinnar.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

DR. STURLA Friðriksson erfðafræðingur gaf nýlega út áttundu ljóðabók sína og heitir hún Ljóð úr lífshlaupi. Þar birtir Sturla safn lausavísna, limra og stuttra kvæða sem hann hefur ort á ýmsum skeiðum ævi sinnar. Þar á meðal eru nokkrar af fyrstu vísum og ljóðum sem hann orti en Sturla er nú á 88. aldursári.

„Við góð tækifæri reyni ég að ríma eitthvað og það hef ég gert í gegnum ævina,“ sagði Sturla. Hann kvaðst vera kominn af skáldmæltu fólki í báðar ættir og voru foreldrar hans ljóðelskir. Guðný skáldkona á Klömbrum, fyrsta konan sem gaf út ljóðabók á Íslandi, er langalangamma Sturlu. Jarþrúður Jónsdóttir föðursystir hans var líka skáldmælt. Sem drengur lærði Sturla ljóð og fór hann snemma að yrkja. Eftirfarandi sléttubönd orti Sturla þegar hann var aðeins 12 ára og í fyrsta bekk Gagnfræðaskóla Reykjavíkur:

Sáran bítur jörðu jel,

jafnvel skrugga kemur.

Báran fleyi vaggar vel,

veður gluggann lemur.

Sturla hefur lesið mikið af ljóðum um ævina, nema af ljóðum yngri skálda. Þau hefur hann sniðgengið. Hann kveðst hafa alist upp við hefðbundna ljóðagerð með ljóðstöfum og rími, en ekki „einhverja rímlausa þvælu“. Auk þess að yrkja hefur Sturla myndskreytt mörg ljóðanna í bókinni. „Ég er svolítið drátthagur og þegar ég hef skrifað dagbók hef ég stundum sett einhverja teikningu inn í hana.“

Ný fyrir jólin kom út önnur bók eftir Sturlu og heitir hún Heimshornaflakk. Þar eru frásögur af ferðalögum hans víða um heim. Sturla kveðst oft hafa notað frístundir á ferðalögum til að yrkja. Í ljóðabókinni Ljóð úr lífshlaupi birtist m.a. kvæðið Vínlandsför. Það orti Sturla í lok siglingar vestur um haf með Goðafossi haustið 1942 en þá stóð seinni heimsstyrjöldin sem hæst. Þá var Sturla á leið til framhaldsnáms við Cornell-háskóla í Íþöku. Goðafoss sigldi í skipalest og stóð sjóferðin í 21 dag. Sturla lýsti ferðalaginu í bragnum og flutti svo kvæðið fyrir ferðafélagana í ferðarlok.

Ljóðabókina tileinkar Sturla starfsfélögum sínum. Nokkrar lausavísnanna eru ortar á vinnustað eða í ferðalögum með starfsfélögum. „Þá hef ég þurft að ergja þá með einhverjum vísum,“ sagði Sturla.