Eftir Sigurð Boga Sævarsson sbs@mbl.is SÚ skemmtun þjóðarinnar að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld er nánast helmingi dýrari nú en fyrir tveimur árum.

Eftir Sigurð Boga Sævarsson

sbs@mbl.is

SÚ skemmtun þjóðarinnar að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld er nánast helmingi dýrari nú en fyrir tveimur árum. Sprenging hefur orðið í verði flugelda, þó að þeir kosti að vísu ámóta mikið nú og fyrir síðustu áramót. Milli áranna 2007 og 2008 urðu þeir stórum dýrari, meðal annars vegna áhrifa af gengisfalli krónunnar og sömuleiðis hækkaði innkaupsverð frá verksmiðjum mikið. Björgunarsveitirnar eru jafnan umsvifamestar í flugeldasölunni sem er þeim alla jafna mikilvæg fjáröflunarleið.

„Verðbreytingarnar í fyrra voru mjög miklar en þá tókum við þær á okkur að nokkru leyti. Því skilaði flugeldasalan okkur sáralitlu. Við erum hins vegar að vonast til að ná jafnvægi í þessu í ár, enda er innkaupsverðið nú lægra en í fyrra,“ segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Troðni er vinsæll fjölskyldupakki með flugeldum sem björgunarsveitirnar bjóða og kostar í ár 11.900. Fyrir tveimur árum kostaði þessi pakkning hins vegar 6.300 kr. og er hækkunin 89%.

Knattspyrnudeild KR er umsvifamikil í flugeldasölu. Þar er boðið upp á svonefndan Bronspakka sem nú kostar 6.500 kr. sem er 124% hækkun frá 2007 þegar pakkningin fékkst á 2.900 kr. Eigi að síður er innihald pakkans nánast það sama, að sögn Lúðvíks Georgssonar hjá KR-flugeldum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið um sextíu aðilum leyfi til flugeldasölu fyrir þessi áramót. Flest leyfanna hafa verið gefin út til björgunarsveita, en einnig karlaklúbba, einkafyrirtækja og íþróttafélaga.