ANNA Sigrún Snorradóttir dagskrárgerðarmaður er látin á nítugasta aldursári. Anna var fædd 16. október 1920. Foreldrar hennar voru Snorri Sigfússon, skólastjóri og námsstjóri, og Guðrún Jóhannesdóttir, húsfreyja á Flateyri og Akureyri.

ANNA Sigrún Snorradóttir dagskrárgerðarmaður er látin á nítugasta aldursári. Anna var fædd 16. október 1920. Foreldrar hennar voru Snorri Sigfússon, skólastjóri og námsstjóri, og Guðrún Jóhannesdóttir, húsfreyja á Flateyri og Akureyri. Anna lauk stúdentsprófi frá M.A. 1942. Hún stundaði nám í Englandi og í Svíþjóð á árunum 1945-47, m.a. var hún í starfsnámi hjá BBC í London.

Anna var kennari við Barnaskóla Akureyrar 1942-1945. Hún veitti fræðsludeild KEA forstöðu 1948-1949. Hún var búsett í Kaupmannahöfn 1952-1958 og vann við skrifstofustörf hjá Flugfélagi Íslands 1952-1954. Lengst starfaði hún hjá Ríkisútvarpinu, 1959-1970, og vann aðallega við dagskrárgerð fyrir börn. Hún hefur flutt margs konar útvarpsefni síðan. Anna vann stjórnunarstörf í Sólarfilmu frá 1972 þar til hún lét af störfum þar vegna aldurs.

Hún skrifaði reglulega greinar í blaðið Dag á Akureyri (1942-1952), einnig tvö ár í Samvinnuna og var í 7 ár í útgáfustjórn Húsfreyjunnar. Hún þýddi nokkrar barnabækur og gaf út sex ljóðabækur.

Anna giftist 1949 Birgi Þórhallssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra og eiganda Sólarfilmu. Þau eignuðust þrjú börn, Snorra Sigfús píanóleikara og tónskáld, Guðrúnu Sigríði flautuleikara og Þórhall fiðluleikara og eiganda Sólarfilmu.