Halldór Jónsson
Halldór Jónsson
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is FYRIR stuttu kom út skáldsagan Sagittarus rísandi eftir flugkappann Cecil Lewis sem tók þátt í tveimur heimsstyrjöldum sem orrustuflugmaður. Bókina þýddi Halldór Jónsson verkfræðingur sem gefur hana líka út.

Eftir Árna Matthíasson

arnim@mbl.is

FYRIR stuttu kom út skáldsagan Sagittarus rísandi eftir flugkappann Cecil Lewis sem tók þátt í tveimur heimsstyrjöldum sem orrustuflugmaður. Bókina þýddi Halldór Jónsson verkfræðingur sem gefur hana líka út. Hann segist hafa þýtt bókina nánast fyrir tilviljun, því hann var að dunda sér við uppsetningu og prófanir á þýðingaforriti eftir að hafa misst vinnuna við hrunið líkt og flestir aðrir verkfræðingar. „Ég greip þessa bók, sem ég hafði átt í mörg ár, og þýddi fyrsta kaflann og formálann og svo fór karlinn að ná tökum á mér og endaði með því að ég kláraði þýðinguna.

Cecil Lewis átti merkilega ævi, var sannkallaður ævintýramaður, því ekki er nóg með að hann flygi sem orrustuflugmaður í tveimur heimsstyrjöldum, heldur var hann þekktur rithöfundur og einn af stofnendum breska ríkisútvarpsins og meðal fyrirlesara á BBC fram yfir nírætt.“

Að lokinni þýðingunni segist Halldór eiginlega hafa leiðst út í að gefa bókina út sjálfur, en það hafi ekki gengið ýkja vel að selja hana: „Ætli ég fari nema beint á hausinn með þessa útgáfu, en ég er nú að hjálpa vini mínum að þýða tilskipanir Evrópusambandsins, kannski ég fái vinnu við eitthvað svoleiðis einhvern tímann. Þetta var samt ógurlega skemmtilegt verk og það var gaman að læra allt saman um hvernig bók verður til, þannig að ég kann núna að gefa út bók, en hef líka komist að því að það er enginn bisness í bókaútgáfu nema þú heitir Guðrún frá Lundi eða Arnaldur.“