Bláskeljarækt Feðgarnir Gylfi Rúnarsson og Sandri Freyr Gylfason eru í hópi bláskeljaræktenda.
Bláskeljarækt Feðgarnir Gylfi Rúnarsson og Sandri Freyr Gylfason eru í hópi bláskeljaræktenda.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is RÆKTUN á bláskel getur skilað 1.500 tonna framleiðslu á næstu árum og 6.000 tonnum eftir sex ár. Til að það megi verða þurfa ræktunarmenn að spýta í lófana.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

RÆKTUN á bláskel getur skilað 1.500 tonna framleiðslu á næstu árum og 6.000 tonnum eftir sex ár. Til að það megi verða þurfa ræktunarmenn að spýta í lófana. Bláskelin er eftirsótt á Evrópumarkaði og þessi framleiðsla gæti skilað tveimur milljörðum í útflutningstekjur á ári og skapað 175 störf við ræktun og fullvinnslu.

Sautján fyrirtæki stunda bláskeljarækt hér við land. Flest eru að stíga fyrstu skrefin, önnur eru tilbúin til að fara út í alvöru framleiðslu og eitt fyrirtæki hefur lokið fullri fjármögnum og hafið útflutning. Fyrirtækin sautján sem mynda hagsmunasamtökin Skelrækt eru með lirfusöfnun og ræktun um allt land, þó ekki við suðurströndina. Þau minnstu er með eina línu við lirfusöfnun en það stærsta með 3.500 ræktunarsokka fulla af skel í áframræktun.

Enginn fóðurkostnaður

Skelræktarmenn eru samtals með 175 línur í sjó og hver lína er 200 metra löng. Tveir kílómetrar af þræði til að safna lirfu eða ræktunarsokkum er á hverri línu, samtals 350 kílómetrar. Þessi aðstaða getur gefið af sér um 600 tonna framleiðslu á ári, að sögn Jóns Páls Baldvinssonar, ritara Skelræktar.

Í stefnumótun í bláskeljarækt, sem Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur gert fyrir Skelrækt, kemur fram að verði rétt haldið á spilunum við uppbyggingu geti þessi atvinnugrein framleitt alls um 1.500 tonn á næstu þremur til fjórum árum. Þá er áætlað að árleg framleiðsla verði orðin 6.000 tonn árið 2015 og að það skapi allt að 175 ársverk í framleiðslu og fullvinnslu afurða. Árlegar útflutningstekjur verði þá tveir milljarðar kr.

Þetta eru framtíðardraumarnir. En hversu raunhæfir eru þeir? „Guðrún Þórarinsdóttir fór vísindalega yfir þetta þegar hún lauk meistararitgerð sinni fyrir tólf árum. Niðurstöður hennar sýna að hægt er að safna kræklingi hér við land á einu ári og rækta hann í uppskerustærð á tveimur árum, alveg eins og í nágrannalöndunum,“ segir Jón Páll.

Hann vekur athygli á því að grundvallarmunur sé á ræktun í sjó og eldi. Ekki þurfi að fóðra skelina og það dragi mjög úr rekstrarkostnaði.

„Kræklingarækt hefur verið í hægfara þróun en er nú að komast á skrið. Lengst er þróunin komin hjá Norðurskel í Hrísey og við hinir njótum góðs af því,“ segir hann.

Norðurskel er eina fyrirtækið sem hefur komið sér upp aðstöðu til fullvinnslu í neytendaumbúðir og hafið útflutning á heilli, lifandi skel. Jón Páll segir að önnur fyrirtæki þurfi slíka aðstöðu þegar framleiðslan eykst og telur ekki ólíklegt að þau muni taka sig saman um vinnsluna.

Þurfa að fjármagna sig

Tiltölulega ódýrt er að koma upp kræklingarækt en til þess þarf nokkra þekkingu. Menn hafa þó gjarnan farið af stað í bjartsýni og rekið sig svo á. Kostnaðurinn reynist oft meiri en reiknað var með. Eigi að síður er kostnaður við að búa til hvert starf mun minni í kræklingarækt en í mörgu öðru, að sögn Jóns. „Þetta er nokkuð jöfn og örugg framleiðsla og ekki von á sömu áföllum og í fiskeldi,“ segir Jón Páll.

Nú er komið að ákveðnum tímamótum hjá brautryðjendunum. Þeir eru búnir að fara í gegnum lirfusöfnun og ræktun í smáum stíl og þurfa að taka næsta skref. „Menn hafa verið að fjármagna uppbygginguna úr eigin vasa, lagt í þetta nokkrar milljónir. Nú eru þeir að velta framtíðinni fyrir sér, hvort þeir eigi að fá fjármögnun og láta fyrirtækið að miklu leyti frá sér eða halda áfram í baslinu og byggja þetta hægt og rólega upp. Til þess að útflutningur hefjist að einhverju marki þarf að fjármagna fleiri fyrirtæki til fulls,“ segir hann. Tekur Jón Páll fram að þótt menn gjarnan vildu hafi þeir ekki haft greiðan aðgang að fjármagni að undanförnu, ekki frekar en annar atvinnurekstur.

Eftirsótt vara í Evrópu

Nægur markaður er fyrir góða bláskel frá Íslandi og hefur lengi verið. Af umhverfisástæðum hefur dregið úr framleiðslu í Evrópu og markaðurinn hrópar á meiri framleiðslu.

Heimsframleiðsla á kræklingi er um tvær milljónir tonna. Jón Páll segir að besti hluti markaðarins í Evrópu, sem íslenskir ræktendur horfi einkum til, sé áætlaður um 350 þúsund tonn. Hann taki við heilli, lifandi bláskel frá Íslandi á góðu verði.

Í hnotskurn
» Bláskeljalirfum er safnað í júlímánuði. Þær svífa um sjóinn og einhver hluti þeirra festist á línur skelræktarmanna.
» Eftir ár í sjónum er smáskelin sett í ræktunarsokka sem hengdir eru á línur úti á sjó.
» Bláskelin nær 45 til 65 mm lengd eftir um það bil 26 mánuði og þá er komið að uppskeru.

Spennandi fyrir líffræðing og matgæðing

„Ræktunin er spennandi viðfangsefni fyrir líffræðing og ofboðslega góður matur sem ég kann að meta sem matgæðingur,“ segir Jón Páll Baldvinsson, líffræðingur og ritari Skelræktar. Hann á aðild að tveimur kræklingafyrirtækjum, í Hvalfirði og Breiðafirði.

„Þetta er vistvæn framleiðsla sem útheimtir hvorki lyfjagjöf né kynbætur. Maður er að nýta dýrategund sem fyrirfinnst í náttúrunni og bæta við búsvæði hennar þannig að fleiri dýr komist á legg,“ segir Jón Páll þegar hann er spurður að því hvað veki áhuga hans við þessa framleiðslu.