<strong>Töf</strong> Farþegar í biðröð á alþjóðaflugvellinum í Chicago.
Töf Farþegar í biðröð á alþjóðaflugvellinum í Chicago. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

ÖRYGGISREGLUR voru hertar mjög á flugvöllum um allan heim í gær í kjölfar misheppnaðrar tilraunar 23 ára gamals Nígeríumanns, Umars Farouks Abdulmutallabs, til að sprengja upp farþegavél Northwest-félagsins með 290 manns um borð yfir Detroit á jóladag. Annar Nígeríumaður var handtekinn eftir að sama vél lenti í Detroit í gær en ekki var ljóst hvað hafði gerst um borð. Hann mun hafa læst sig inni á salerni.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur gefið skipun um að farið verði yfir viðvörunarkerfi sem notað er til að fylgjast með fólki sem grunað er um lausleg tengsl við hryðjuverkasamtök en Nígeríumaðurinn var á lista yfir þannig fólk. Alls munu vera um 550 þúsund manns á nokkrum gátlistum en talið er að samvinnu skorti milli ýmissa stofnana vestra sem annast öryggismál.

Abdulmutallab, sem er menntaður í Bretlandi, Dubai og Jemen, kom frá Amsterdam til Detroit í Bandaríkjunum og embættismenn Evrópusambandsins rannsaka nú hvort farið hafi verið eftir öryggisreglum á flugvöllum.

Farþegar yfirbuguðu Abdulmutallab þegar hann reyndi að sprengja efni sem hann faldi á sér en kveikibúnaður hans mun ekki hafa virkað. Bandaríkjamenn segja að ekkert bendi til þess að Nígeríumaðurinn sé þátttakandi í stærri áætlun al-Qaeda samtakanna. „Það er ekkert sem bendir til þess að tilræðið sé liður í stærri áætlun, en rannsóknin heldur að sjálfsögðu áfram,“ segir Janet Napolitano heimavarnaráðherra.

Í hnotskurn
» Abdulmutallab er múslími og sonur auðugs bankamanns í Nígeríu en sleit nýlega öll tengsl við fjölskyldu sína.
» Faðirinn lét nýlega bandaríska sendiráðið og leyniþjónustu Nígeríu vita af áhyggjum sínum vegna ofstækis sonarins.