VÍSINDAMENN í Bandaríkjunum leggja til að flugfélög minnki orkunotkun farþegavéla með því að láta þær fara á milli milli áfangastaða í oddaflugi eins og gæsir, að sögn Guardian .

VÍSINDAMENN í Bandaríkjunum leggja til að flugfélög minnki orkunotkun farþegavéla með því að láta þær fara á milli milli áfangastaða í oddaflugi eins og gæsir, að sögn Guardian . Þýskur fræðimaður, Carl Wieselsberger, sýndi fram á það með útreikningum fyrir nær 100 árum að gæsir notuðu oddaflug vegna þess að fremsta gæsin skapaði með vængjatakinu uppstreymi lofts sem þýddi að hinar þyrftu minni orku til að blaka vængjunum og gætu því flogið lengra.

Franskir vísindamenn hafa gert tilraun með pelíkana sem voru þjálfaðir í að fljúga í kjölfar flugvélar en mælitæki voru fest á fuglana. Í ljós kom að hjartslátturinn varð hægari hjá fuglunum í hópnum en fuglum sem flugu einir. Talið er að með oddafluginu geti fuglarnir flogið allt að 70% lengri vegalengd en ella.

Rannsóknateymi undir forystu Ilan Kroos, prófessors við Stanford-háskóla í Kaliforníu, segir að flugvél myndi nota að jafnaði 15% minna eldsneyti ef aðferðin yrði tekin upp. Auk sparnaðarins myndi einnig verða losað mun minna af koldíoxíði sem talið er geta valdið gróðurhúsaáhrifum og hlýnun jarðar. Flugfélög reyna nú í örvæntingu að finna leiðir til að minnka losunina en verði jafnmikil aukning í flugi og spáð er næstu tvo áratugina verður farþegaflug ein af helstu orsökum aukins magns koldíoxíðs í andrúmsloftinu.

Vandinn er að oddaflug gæti stefnt flugöryggi í voða og einnig gæti orðið ákaflega snúið að samræma flugáætlanir. Kroo og liðsmenn hans segja að hægt verði að leysa þau vandamál með því að þróa hugmyndina frekar. kjon@mbl.is