Handtaka Stuðningsmanni Liu Xiaobo ýtt inn í lögreglubíl í Peking eftir ryskingar við lögreglu fyrir utan dómsalinn þar sem réttað var yfir Liu.
Handtaka Stuðningsmanni Liu Xiaobo ýtt inn í lögreglubíl í Peking eftir ryskingar við lögreglu fyrir utan dómsalinn þar sem réttað var yfir Liu. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tíu þúsund manns hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem þess er krafist að kínversk stjórnvöld geri umbætur og virði mannréttindi. Einn þeirra var dæmdur í 11 ára fangelsi á jóladag.

Eftir Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Kínversk stjórnvöld eiga erfitt með að kyngja gagnrýni. Þegar gagnrýnin beinist að flokksræðinu, yfirráðum eins flokks yfir Kína, tekur steininn úr. Á jóladag var Liu Xiaobo dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir málflutning sinn. Viðbrögð víða um heim voru að saka kínversk stjórnvöld um ofsóknir á hendur pólitískum andstæðingum.

Liu var gefið að sök að „hvetja til undirróðurs gegn ríkisvaldinu“ eins og það er orðað í kínverskum lögum. Hann var handtekinn fyrir ári fyrir að vera einn af höfundum pólitískrar yfirlýsingar, Charter 08, þar sem krafist er umbóta og mannréttinda. Tíu þúsund manns hafa undirritað yfirlýsinguna þar sem segir meðal annars að gera eigi „málfrelsi, prentfrelsi og akademískt frelsi algilt og tryggja þannig að borgarar geti verið upplýstir og neytt réttar síns til pólitísks aðhalds“. Í yfirlýsingunni er einnig hvatt til að undirróðurslögin, sem notuð voru til að dæma Liu, verði afnumin. Liu verður 54 ára gamall í dag. Hann er rithöfundur og hefur um langt skeið hvatt til umbóta og lýðræðis í Kína.

Þegar stjórnvöld létu til skarar skríða eftir sex vikna mótmæli á Torgi hins himneska friðar 3. júní 1989 tók Liu þátt í að semja um að þúsundir mómtælenda fengju að komast af vettvangi óáreittar. Hann var handtekinn fyrir þátt sinn í mótmælunum á Torgi hins himneska friðar skömmu eftir að þau voru kveðin niður með hervaldi og látinn laus aftur í upphafi 1991 án kæru.

Þrjú ár í þrælkunarbúðum

Liu var handtekinn á ný fyrir að sækjast eftir því að þeir, sem voru settir í fangelsi eftir mótmælin á Torgi hins himneska friðar, yrðu látnir lausir og andæfa dómi stjórnvalda um að mótmælin væru uppreisn gegn kínversku byltingunni. Honum var refsað með vist í þrælkunarbúðum frá 1996 til 1999.

Liu er með doktorspróf í kínverskum bókmenntum og var prófessor við háskóla í Peking (Beijing Normal University), en eftir mótmælin 1989 hefur honum verið bannað að kenna við ríkisstofnanir.

Honum hefur einnig verið bannað að birta skrif sín í Kína, en margt eftir hann hefur birst í Hong Kong og víða erlendis. Sumt af þessum skrifum er hægt að nálgast á netinu innan Kína og er sagt að þau hafi verið notuð gegn honum í réttarhöldunum.

Liu er kvæntur. Kona hans, Liu Xia, mátti ekki að fylgjast með réttarhöldunum, en fékk að hitta hann í tíu mínútur á jóladag og sagði eftir þann fund að hann myndi áfrýja dómnum. Ýmsum öðrum var einnig meinaður aðgangur, þar á meðal kínverskum andófsmönnum og vestrænum stjórnarerindrekum.

Fjöldi manns, sem styður yfirlýsinguna Charter 08, hefur stutt Liu. Margir hafa undirritað yfirlýsingu þar sem segir að eigi að rétta yfir Liu á þessum forsendum „eigum við allir heima í dómsalnum með honum og verði hann dæmdur sekur um „glæp“ mun sá dómur standa sem yfirlýsing um að hver okkar hafi einnig framið þann glæp“.

Óttinn við andóf

Yfirvöld í Kína láta fylgjast rækilega með andófsmönnum. Réttarhöldin yfir Liu Xiaobo, sem var dæmdur í 11 ára fangelsi meðal annars fyrir að undirrita yfirlýsingu, Charter 08, þar sem krafist er umbóta, bera því vitni hvað kínversk stjórnvöld óttast andóf. Þau gera lítið úr yfirlýsingunni, en þó er bannað að nefna hana í fjölmiðlum og netsíur notaðar til að hreinsa hana burt af netinu. 303 einstaklingar undirrituðu yfirlýsinguna upprunalega og hefur lögreglan heimsótt þá alla til að vara þá við því að fylgja henni eftir.

Þá er augljóst að tímasetning réttarhaldanna yfir Liu miðaðist við að lítið færi fyrir þeim. Þegar tilkynnt var um réttarhöldin voru umhverfismál í deiglunni í Kaupmannahöfn og dómur var felldur á jóladag til þess að hann vekti sem minnsta athygli á Vesturlöndum.