[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Almenn ánægja er með nýsamþykkt nýsköpunarlög. Lögin kveða á um skattaafslátt til handa nýsköpunarfyrirtækjum og þeim sem fjárfesta í slíkum fyrirtækjum, og er markmið laganna að hvetja til rannsóknar- og þróunarstarfs í landinu.

Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynurorri@mbl.is

MEÐAL fjölmargra frumvarpa sem samþykkt voru rétt fyrir jól er frumvarp til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Lítið fór fyrir frumvarpinu, sem líklega stafar af því að ágæt sátt var milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu um málið.

Lögunum má skipta í tvennt. Annars vegar geta nýsköpunarfyrirtæki sem hafa fengið staðfestingu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís) öðlast rétt til sérstaks frádráttar frá álögðum tekjuskatti. Nemur frádrátturinn 15% af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna upp að 50 milljónum.

Hins vegar geta einstaklingar og lögaðilar, sem festa kaup á nýju hlutafé í samþykktum nýsköpunarfyrirtækjum, dregið kaupverðið frá skattskyldum tekjum. Frádrátturinn getur aldrei orðið hærri en 300.000 krónur hjá einstaklingum og 15 milljónir hjá lögaðilum.

Fyrirtæki þarf að uppfylla ýmis skilyrði til að hljóta staðfestingu Rannís sem nýsköpunarfyrirtæki. Til að öðlast rétt til skattafrádráttar þarf fyrirtæki m.a. að verja a.m.k. 5 milljónum til rannsókna og þróunar næsta árið.

Mikilvægar skilgreiningar

Mikið veltur því á hvort fyrirtæki eru álitin stunda rannsóknir og þróunarvinnu. Rannsóknir eru samkvæmt lögunum tilraunir eða fræðileg vinna innt af hendi til að afla undirstöðuþekkingar, en þróun er skilin sem kerfisbundin vinna sem byggist á fyrirliggjandi þekkingu og miðar að því að framleiða ný efni, vörur og tæki.

Til að fjárfesting í fyrirtæki veiti kaupanda skattaafslátt þarf fyrirtækið einnig að uppfylla ýmis skilyrði, svo sem að það hafi undanfarið varið a.m.k. 1,5% af rekstrarkostnaði til rannsókna og þróunar. Einnig þarf upplýsingagjöf þess til fjárfesta að vera tryggð.

Bæði Alþýðusamband Íslands og Samtök iðnaðarins hafa fagnað lögunum og telja þau mikilvæg til að stuðla að nýsköpun í landinu.

Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri nýsköpunar- og frumkvöðlasetursins Innovit, segir mikilvægt skref hafa verið tekið í þessum efnum. Hins vegar telur hann nokkra galla vera á lögunum.

Hækka þarf hámarkið

Til dæmis þyrftu áðurnefndar hámarksfjárhæðir, sem einstaklingar og fyrirtæki geta vegna fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum dregið frá skattskyldum tekjum, að vera hærri til að um sé að ræða raunverulega hvatningu.

Þá er það galli á lögunum að þau leyfa ekki skattafrádrátt vegna kaupa í sjóðum sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, segir Andri. Hann bendir á að fjárfesting í gegnum sjóði dreifi áhættu fjárfesta og geti auk þess komið í veg fyrir að fyrirtækin sitji uppi með marga smáhluthafa með tilheyrandi flækjum.

Í meirihlutaáliti efnahags- og skattanefndar segir að fallið hafi verið frá því að skattaafslátturinn nái til fjárfestingar í sjóðum sökum þess að skattaeftirlitið væri ekki undir það búið.

Loks telur Andri að skilgreiningar hefðu mátt vera skýrari í lögunum, enda velti það hvort fyrirtæki teljist stunda rannsóknir, þróun og nýsköpun að talsverðu leyti á huglægu mati starfsmanna Rannís. Æskilegt hefði verið að skilgreiningarnar væru nægilega skýrar til að t.d. löggiltir endurskoðendur gætu metið hvort fyrirtæki ætti rétt á stuðningnum.

Í hnotskurn
» Nýsköpunarfyrirtæki og þeir sem fjáfesta í slíkum fyrirtæki fá samkvæmt lögunum skattaívilnanir.
» Kostnaður hins opinbera vegna þessa gæti samkvæmt athugasemdum við frumvarpið numið 1.300 til 1.600 milljónum árlega.
» Nái lögin tilætluðum árangri munu þó á móti koma nýjar skatttekjur vegna aukinna umsvifa í nýsköpun.