Frá Jóhanni Þór Hopkins: "NÚ HEFUR svonefndum náttúruverndarsinnum tekist með áróðri miklum að koma því endanlega til leiðar að nánast allur akstur um óbyggðir landsins er bannaður. Þarna er auðvitað eins og oft áður verið að láta fjölda fólks líða fyrir gjörðir fárra."

NÚ HEFUR svonefndum náttúruverndarsinnum tekist með áróðri miklum að koma því endanlega til leiðar að nánast allur akstur um óbyggðir landsins er bannaður. Þarna er auðvitað eins og oft áður verið að láta fjölda fólks líða fyrir gjörðir fárra.

Það sjónarhorn að landið skuli vera varið fyrir ágangi á sér litla stoð; hvers virði eru óbyggðirnar ef enginn getur notið þeirra nema gangandi eða fljúgandi?

Það er gríðarlega stór hópur fólks sem hefur ferðast um landið á vel útbúnum bílum áratugum saman án þess að hafa valdið landspjöllum, þetta fólk er að ferðast með fjölskyldur sínar til að njóta gæða landsins og alls ekki til að skemma það. Þetta fólk hefur eytt stórum fjárhæðum til þess að útbúa farartæki sín þannig að henti akstri um óbyggðir, svo ekki sé talað um öll gjöldin sem af þessum ferðalögum hljótast, eldsneyti, viðskipti við landsbyggðina í ýmsu formi o.s.frv.

Það hlýtur því að vera sjálfsögð og eðlileg krafa þeirra sem kjósa frekar að aka um landið, hvort sem heldur er vegna þess að þeir vilja það eða eru ófærir um langar göngur um óbyggðir, að lagðir verði huggulegir malarslóðar um landið þvert og endilangt og enginn kimi skilinn eftir og að landið ALLT verði ÖLLUM fært.

Skora ég hér með á þá er höfðu eitthvað með þetta mál að gera að taka þetta mál til skoðunar.

JÓHANN ÞÓR HOPKINS,

Hesthömrum 19, Reykjavík.

Frá Jóhanni Þór Hopkins