— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynurorri@mbl.is ÁRIÐ 2011 verður gríðarlega erfitt fyrir ríkissjóð eins og sjá má á tölum sem Seðlabanki Íslands kynnti viðskiptanefnd Alþingis rétt fyrir jól. Það ár mun endurgreiðsla erlendra lána nema rúmum 1.

Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynurorri@mbl.is

ÁRIÐ 2011 verður gríðarlega erfitt fyrir ríkissjóð eins og sjá má á tölum sem Seðlabanki Íslands kynnti viðskiptanefnd Alþingis rétt fyrir jól. Það ár mun endurgreiðsla erlendra lána nema rúmum 1.467 milljónum evra, og stendur árið upp úr í samanburði við önnur ár, sem verða ríkissjóði þó einnig erfið.

Á meðfylgjandi línuriti má sjá endurgreiðslu næstu ára, og eins greiðslur vegna Icesave sem hlutfall af heildarendurgreiðslum erlendra lána. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir umræddar tölur sýna að skuldir vegna Icesave sem hlutfall af erlendum heildarskuldum þjóðarbúsins séu töluvert minni en margir virðist hafa talið.

Af tölunum sést að gert er ráð fyrir að árið 2021 hafi ríkissjóði tekist að greiða niður öll þau erlendu lán sem á honum hvíla í dag og að ekki verði tekin nein ný erlend lán á tímabilinu sem tölurnar taka til.

Spurður að því hvort áðurnefndar forsendur séu raunhæfar segir Steingrímur: „Það er fyllilega raunhæft ef vel gengur. En auðvitað er þetta háð því hvernig okkur vegnar og hvernig efnahagsmál í heiminum almennt þróast.“

Icesave verður aftur tekið á dagskrá er Alþingi kemur saman í dag. Steingrímur segist telja að dagarnir fram að áramótum dugi þinginu til að afgreiða málið, og segist bjartsýnn á að Icesave-frumvarpið hljóti samþykki.