Magnaður Cesc Fabregas þurfti ekki langan tíma til að koma Arsenal á sigurbraut gegn Aston Villa.
Magnaður Cesc Fabregas þurfti ekki langan tíma til að koma Arsenal á sigurbraut gegn Aston Villa. — Reuters
Það er skiljanlegt að Evrópumeistarar Barcelona skuli sífellt klifa á því að þeir vilji fá Cesc Fabregas til baka frá Arsenal.

Það er skiljanlegt að Evrópumeistarar Barcelona skuli sífellt klifa á því að þeir vilji fá Cesc Fabregas til baka frá Arsenal. Hinn spænski fyrirliði Lundúnaliðsins fór á kostum á 27 mínútum í gær þegar hann lagði grunninn að góðum sigri Arsenal á Aston Villa, 3:0, í ensku úrvalsdeildinni. Arsene Wenger tók mikla áhættu með því að tefla Fabregas fram, setti hann inná sem varamann og varð síðan að taka hann meiddan af velli, eftir að Spánverjinn hafði skorað tvö mörk.

Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

JOAN Laporta, forseti Barcelona, sagði á dögunum að félagið myndi gera enn eina tilraunina til að fá Fabregas keyptan síðar í vetur, og uppskar hörð viðbrögð frá forráðamönnum Arsenal. Fabregas er með langan samning við Arsenal og hefur sjálfur ætíð sagt að hjá sér sé ekki annað í myndinni en að standa við hann.

Fabregas tognaði í læri fyrr í þessum mánuði og talið var hæpið að hann næði að spila jólaleiki Arsenal. Wenger valdi hann samt í hóp sinn fyrir leikinn í gær, og setti hann inná snemma í seinni hálfleik þegar staðan var 0:0. Fabregas breytti þegar gangi leiksins og skoraði tvö mörk. Það fyrra beint úr aukaspyrnu og það seinna eftir fallega skyndisókn og sendingu frá Theo Walcott. Við seinna markið virtist tognunin taka sig upp að nýju og Fabregas var skipt af velli rétt á eftir. En hann hafði gert nóg, mótspyrna Aston Villa var brotin á bak aftur og Abou Diaby innsiglaði síðan sigurinn með marki í uppbótartíma.

Nokkrir dagar eða þrjár vikur

„Við vitum ekki ennþá hvort þetta er smávægileg rifa eða hvort hann hefur tognað á ný. Annaðhvort verður hann kominn í gang eftir nokkra daga, eða verður að taka sér þriggja vikna hvíld,“ sagði Wenger við fréttamenn eftir leikinn, og varði þá ákvörðun sína að tefla fyrirliðanum fram í þessum þýðingarmikla leik.

„Ég tel að ég hafi gert rétt, og myndi gera það sama aftur. Ég hafði hann með í hópnum, með það í huga að ef liðið þyrfti virkilega á honum að halda myndi ég setja hann inná. Ég hefði ekki gert það ef staðan hefði verið 1:0 fyrir okkur, en maður gerir jafnan það sem til þarf til að sigra,“ sagði Wenger.

Fabregas er magnaður

Thomas Vermaelen, belgíski miðvörðurinn hjá Arsenal, var ánægður með framlag fyrirliðans.

„Hann var frábær, Hann gerði allt sem í hans valdi stóð síðustu tíu dagana til að verða leikfær, og lék stórkostlega. Hann er magnaður leikmaður. Við vorum betri aðilinn en sköpuðum okkur ekki nógu mörg marktækifæri fyrr en Fabregas kom inná,“ sagði Vermaelen.

Arsenal galopnaði toppbaráttuna með sigrinum en liðið er nú í þriðja sætinu, fjórum stigum á eftir Chelsea og tveimur á eftir Manchester United, en á leik til góða.