Nú eru menn að taka upp þráðinn á Alþingi.

Nú eru menn að taka upp þráðinn á Alþingi. Þeir ætla að koma saman á milli jóladaga og gamlársdags og leitast við að fá hundraða milljarða ríkisábyrgð samþykkta með eins atkvæðis meirihluta og er þá Þráinn Bertelsson hafður innan sviga, en þar hefur hann haldið sig að undanförnu. Fari þetta eins og ríkisstjórnin er að stofna til er stutt í að einn versti dagur í sögu Alþingis sem löggjafarstofnunar renni upp.

Fyrrverandi formaður Samfylkingar birti nýverið yfirlýsingu, þar sem fram kemur að núverandi ríkisstjórn getur ekki vísað til fyrri stjórnar allri ábyrgð varðandi Icesave-samningana eins og hún hefur margreynt. Það hafi engin bindandi niðurstaða af nokkru tagi legið fyrir við ríkisstjórnarskipti. Fyrri ríkisstjórn hefði vissulega viljað láta reyna á samningaleið og þá skyldi byggt á forsendum sem tóku raunverulegt mið af efnahagsástandi á Íslandi og greiðslugetu þjóðarinnar og jafnframt höfð hliðsjón af að gallað regluverk Evrópusambandsins um innistæðutryggingar á sína stóru sök á hvernig fór.

Nú er staðan sú, að engum af þessum þáttum hefur verið haldið til haga og íslenskir samningamenn virðast hafa gengið til viðræðna við hina aðgangshörðu kröfugerðarmenn bognir og bitnir af sök og samvisku. Slíkir menn eru ekki til stórræða, og þess vegna fór sem fór. Þessi mynd verður ein lesin út úr greinargerð fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar. Sú mynd sem þannig blasir við er býsna athyglisverð. En athyglisverðari þó eru viðbrögð þingmanna Samfylkingar við orðum fyrrverandi formanns síns. Það verður ekki séð að þeir geri neitt með þau, heldur láti allt hennar tal sem vind um eyrun þjóta. Þeir hljóta þó að sjá að botninn er þar með dottinn úr helstu kenningunni sem notuð hefur verið til að afgreiða ríkisábyrgðarmálið blindandi af hálfu samfylkingarmanna. Yfirlýsingin sýnir skýrt að ríkisstjórnin stóð ekki frammi fyrir gerðum hlut. Stjórnarandstaðan er ekki að hlaupa frá samningum sem forystumenn stærsta stjórnarandstöðuflokksins höfðu komið að ásamt forystu Samfylkingar. Framangreindir tveir flokkar höfðu vissulega ekki hafnað því að láta á samningagerð reyna, áður en síðasti kosturinn, dómstólaleiðin, yrði tekinn. En samningagerðin sú var skilyrt og bundin skýrum forsendum. Þau skilyrði voru ekki virt. Á þeim forsendum var ekki staðið. Hryggðarmynd núverandi samnings hangir um háls núverandi ríkisstjórnar og hvergi annars staðar.