Flest hryðjuverk sem öfgahópar vinna bitna á borgurum, sem ekkert hafa til saka unnið. Skýringarnar eru þær að helstu forystumenn stórþjóða sem hryðjuverkamenn telja sig eiga sökótt við njóta öflugrar verndar sérþjálfaðs fólks.
Flest hryðjuverk sem öfgahópar vinna bitna á borgurum, sem ekkert hafa til saka unnið. Skýringarnar eru þær að helstu forystumenn stórþjóða sem hryðjuverkamenn telja sig eiga sökótt við njóta öflugrar verndar sérþjálfaðs fólks. Og árásir gegn almennum borgurum vekja ógn og skelfingu sem er viðvarandi. Áhrifa- og ógnunarvald hryðjuverkamanna vex að sama skapi. Sérhver ferðalangur, sérstaklega í millilandaflugi, sætir óþægindum og tortryggni og jafnvel niðurlægjandi eftirliti í fyrsta hluta síns ferðalags. Ekki þýðir að mögla, menn eiga ekki annan kost. Fáar fréttir hafa borist um að sprengiefni hafi fundist við vopnaleit, svo umfangsmikil sem hún er um allan heim. Vonandi er það vegna fælingarmáttar hennar. En fyrir kemur að óþokkarnir hafa sloppið í gegn og tvívegis hefur farþegum í háloftum tekist að yfirbuga menn sem ætluðu að sprengja vél í loft upp. Slík tilvik verða til þess að þrengja enn kost og auka óþægindi farþega, draga úr ferðavilja og auka útgjöld einstaklinga og ríkja. Hryðjuverkamenn hafa því náð að skaða efnahagslíf og öryggistilfinningu fólks. Til þess er leikurinn einnig gerður.