Hinar köldu klær skattsins ÉG var að horfa á störf Alþingis og atkvæðagreiðslur og allir þessir skattar sem verið er að leggja á núna munu setja svip á samfélagið til frambúðar.

Hinar köldu klær skattsins

ÉG var að horfa á störf Alþingis og atkvæðagreiðslur og allir þessir skattar sem verið er að leggja á núna munu setja svip á samfélagið til frambúðar. Hrædd er ég við, að fyrirtæki og launafólk eigi eftir að berjast í bökkum og fara jafnvel í þrot. Hvað um þessa skjaldborg heimilanna sem forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, talaði um? Er það kannski bara að verða að tjaldborg? Það var líka verið að skerða dagpeninga fólks sem þarf að vera á stofnunum. Þetta er nú það aumasta sem ég hef vitað hjá velferðarstjórn Steingríms J. Sigfússonar.

Svo er það Icesave-reikningurinn. Hvernig í ósköpunum á fámenn þjóð, skuldum vafin, að geta borgað þetta? Ég heyrði í fréttum að um 10 þúsund manns hefðu þurft að þiggja aðstoð hjálparstofnana til þess að eiga mat um jólin. Varla getur það fólk greitt reikninginn.

Um daginn kom til mín eldri kona, hún var grátandi og illa á sig komin. Hún hefur unnið mikið um sína löngu ævi en er núna búin að missa allt sitt fyrir það að hafa verið ábyrgðarmaður. Hún hafði ekki borðað í marga daga og var bæði horuð og illa á sig komin.

Svona á norrænt velferðarsamfélag ekki að vera. Finnst mér að þessi ríkisstjórn ætti að taka pokann sinn og hætta. Hún hefur algjörlega brugðist sínum kjósendum.

Sigrún Reynisdóttir.


Svarað í síma 5691100 frá 10-12
velvakandi@mbl.is