Stjörnurnar Kobe Bryant reynir að stöðva LeBron James í stórleiknum í Staples Center á jóladag.
Stjörnurnar Kobe Bryant reynir að stöðva LeBron James í stórleiknum í Staples Center á jóladag. — Reuters
LEIKMENN og stuðningsmenn Los Angeles Lakers höfðu enga ástæðu til að gleðjast að kveldi jóladags.

LEIKMENN og stuðningsmenn Los Angeles Lakers höfðu enga ástæðu til að gleðjast að kveldi jóladags. Þá fékk NBA-liðið Cleveland Cavaliers í heimsókn og gerðu gestirnir sér lítið fyrir og sigruðu 102:87 við lítinn fögnuð stuðningsmanna Lakers sem hentu gulum höndum úr frauðplasti í átt að leikmönnum sínum, nokkuð sem gerist ekki oft þar á bæ.

„Maður óttaðist mest að einhver leikmanna eða dómararnir fengju fulla vatnsflösku í sig,“ sagði LeBron James, leikmaður Cleveland, eftir leikinn.

Einvígi hans og Kobes Bryants var skemmtilegt en því miður fyrir Lakers þá var það í raun bara Bryant sem reyndi eitthvað. Sumir telja sjálfsagt að hann hafi reynt fullmikið sjálfur, en hann var með 35 stig, níu fráköst og átta stoðsendingar en James gerði 26 stig og átti níu stoðsendingar. Annars var Mo Williams sjóðandi heitur og gerði 28 stig og Shaquille O'Neal gerði 11 stig og tróð fimm sinnum með látum í körfu Lakers.

„Ég hef aldrei séð stuðningsmenn Lakers gera svona lagað. Ég kann vel við áhuga þeirra, en ekki aðferðina við að sýna hann. En þetta var ekki vel leikinn leikur og hann var heldur ekki vel dæmdur þannig að ég skil áhorfendur á vissan hátt,“ sagði Phil Jackson, þjálfari Lakers, eftir leikinn.

Daginn eftir skelltu leikmenn sér til Sacramento þar sem þeir mættu Kings og höfðu 112:103-sigur í tvíframlengdum leik þar sem Lakers gerði 11 stig í seinni framlengingunni en Kings aðeins tvö.

Bryant gerði 38 stig í leiknum, Pau Gasol 24 og var með 11 fráköst. Hjá Kings var Beno Udrih með 23 stig.

Ron Artest lék ekki með Lakers þar sem hann fékk heilahristing þegar hann datt á heimili sínu. Ekki er ljóst hversu lengi hann verður frá keppni. skuli@mbl.is