Eftir Einar Sigtryggsson sport@mbl.is ÞEIR voru í miklu jólaskapi leikmenn Skautafélags Akureyrar í gær þegar Björninn kom í heimsókn og mætti þeim á Íslandsmótinu í íshokkí.

Eftir Einar Sigtryggsson

sport@mbl.is

ÞEIR voru í miklu jólaskapi leikmenn Skautafélags Akureyrar í gær þegar Björninn kom í heimsókn og mætti þeim á Íslandsmótinu í íshokkí. Rauðklæddir eins og jólasveinarnir útdeildu þeir gjöfum til mótherja sinna eins og þeir fengju borgað fyrir það og sendu þá að lokum heim með öll stigin í farteskinu.

Með sigrinum, 5:4, er Björninn búinn að leggja SR og SA í tveimur síðustu leikjum og er farinn að eygja von um sæti í úrslitakeppninni. SA hefði með sigri komist á toppinn en einstök gestrisni þeirra og fádæma klaufagangur kom í veg fyrir það.

Eftir að hafa lent undir strax í byrjun hrukku heimamenn í gang og komust fljótlega í 3:1. Allan fyrsta leikhlutann dundi skothríð á Bjarnarmarkinu en samt fór pökkurinn aðeins þrívegis í netið. Björninn hins vegar svaraði með marki og var því staðan 3:2 eftir fyrsta leikhlutann þrátt fyrir að SA hafi átt hann með húð og hári. Jafnræði var í miðhlutanum og bætti hvort lið við einu marki. Popparinn Rúnar Freyr Rúnarsson skoraði þriðja mark sitt í leiknum og kom SA í 4:3 rétt undir lok leikhlutans.

Tvö mörk á silfurfati

Í lokaleikhlutanum misstu heimamenn algjörlega hausinn og þegar ellefu mínútur lifðu færðu þeir Birninum tvö mörk á silfurfati á sömu mínútunni. Á milli markanna sópaði dómarinn þremur leikmönnum úr varnarlínu SA í refsiboxið fyrir að mótmæla fyrra markinu og fékk hver þeirra tíu mínútna dóm. Ekki mátti liðið við því þar sem tvo bestu varnarmenn liðsins vantaði í leiknum. Björninn hélt hrammi sínum um forskotið allt til loka þrátt fyrir að spila tveimur færri á kafla. Liðsmenn SA reyndu í örvæntingu að jafna en markstangirnar og fljúgandi Bjarnarmenn komu í veg fyrir að pökkurinn færi í netið.

Baráttan hjá gestunum var til fyrirmyndar í leiknum og bræðurnir Brynjar og Trausti Bergmann léku fádæma værukæra varnarmenn SA grátt með hraða sínum og var Brynjar sérlega hættulegur þegar hann óð upp hægri vænginn. Hjá Akureyringum skilaði Rúnar Freyr sínu ásamt Jóni Benedikt Gíslasyni. Hann er nú kominn í slaginn á ný ásamt þjálfara liðsins, Josh Gribben.

Mörk/stoðsendingar:

SA: Rúnar Freyr Rúnarsson 3/0, Jón Benedikt Gíslason 0/2, Orri Blöndal 1/0, Andri Freyr Sverrisson 0/1, Jóhann Már Leifsson 0/1, Björn Már Jakobsson 0/1.

Björninn: Trausti Bergmann 2/0, Brynjar Bergmann 1/1, Matthías Skjöldur Sigurðsson 1/0, Falur Birkir Guðnason 1/0, Arnar Bragi Ingason 0/1, Úlfar Jón Andrésson 0/1.