[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haukar leika til úrslita í deildabikar karla í handknattleik í kvöld eftir öruggan sigur á Val í gær, 29:22, þegar liðin áttust við í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði.

Haukar leika til úrslita í deildabikar karla í handknattleik í kvöld eftir öruggan sigur á Val í gær, 29:22, þegar liðin áttust við í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Yngri og óreyndari leikmenn liðanna fengu að láta ljós sitt skína en með burðarása á borð við hina 22 ára gömlu Sigurberg Sveinsson og Björgvin Hólmgeirsson í sínum röðum var Haukaliðið aldrei líklegt til að tapa leiknum.

Eftir Sindra Sverrisson

sindris@mbl.is

„ÉG sá alltaf eftir því í fyrra að hafa ekki gefið eldri leikmönnunum frí til að veita þeim yngri og óreyndari meiri ábyrgð í þessum leikjum og ég er mjög ánægður með útkomuna í dag. Það er ágætt að nýta deildabikarinn í þetta svo menn venjist því að spila um titil og Evrópusæti og strákarnir svöruðu því ágætlega í dag,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, eftir sigurinn sem þýðir að Haukar spila úrslitaleik við Akureyri í kvöld þar sem bæði titill og sæti í Evrópukeppni eru í húfi.

Athygli vakti, í ljósi fjarveru reyndra og öflugra varnarmanna, hve vel Haukaliðinu tókst að halda aftur af sókn Vals, sérstaklega í seinni hálfleiknum þar sem Valur skoraði aðeins eitt mark á fyrsta korterinu. Það var Aron ánægður með.

„Þetta var auðvitað ekki mistakalaust og sóknarleikurinn var ekki alveg nógu góður en Aron Rafn datt vel í gang í markinu í seinni hálfleiknum og Gísli Jón stýrði vörninni vel. Við vissum að við værum að taka hjartað úr vörninni með því að hvíla eldri leikmennina og að áskorunin fælist í því að láta það ekki koma að sök. Það tókst og þetta gerði það að verkum að við náðum að gera út um leikinn,“ sagði Aron sem var með leikmannahóp á skýrslu þar sem meðalaldurinn var 20,9 ár. Hjá Val var meðalaldurinn enn lægri eða 20,3 ár.

„Í sjálfu sér hvíldum við samt ekki marga leikmenn,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals. „Þetta skrifast frekar á meiðsli. Þetta var samt gott fyrir mig til að sjá ungu strákana spjara sig í alvöru leik.“

Haukar – Valur 29:22

Íþróttahúsið við Strandgötu, deildabikar karla, undanúrslit, sunnudaginn 27. desember 2009.

Gangur leiksins : 3:2, 4:4, 7:5, 10:7, 11:9, 15:12 , 17:13, 19:14, 23:16, 25:18, 28:21, 29:22 .

Mörk Hauka : Sigurbergur Sveinsson 8, Þórður Rafn Guðmundsson 5, Björgvin Hólmgeirsson 5, Einar Pétur Pétursson 2, Guðmundur Árni Ólafsson 2, Jónatan Ingi Jónsson 2, Stefán Rafn Sigurmannsson 2, Pétur Pálsson 1, Elías Már Halldórsson 1, Sigurður Guðjónsson 1.

Varin skot : Aron Rafn Eðvarðsson 12 (þar af 4 til mótherja), Stefán Huldar Stefánsson 3 (þar af 1 til mótherja).

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Vals : Atli Már Báruson 5, Árni Alexander Baldvinsson 5, Fannar Þór Friðgeirsson 4, Sveinn Aron Sveinsson 3, Arnar Guðmundsson 2, Orri Freyr Gíslason 1, Gunnar Ingi Jóhannsson 1, Gunnar Harðarson 1.

Varin skot : Ingvar Guðmundsson 7 (þar af 3 til mótherja), Friðrik Sigmarsson 4 (þar af 1 til mótherja).

Utan vallar : 10 mínútur.

Dómarar : Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson.

Áhorfendur : 480.