[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sala á innlendum bjór hefur vaxið jafnt og þétt sl. 11 ár og eru nú tæp 70% af þeim bjór sem seldur er hér á landi íslensk.

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

Verulegur vöxtur hefur verið í framleiðslu á innlendum bjór undanfarin ár. Brugghús á borð við Bruggsmiðjuna á Árskógsströnd, Ölvisholt og Mjöð hafa aukið umtalsvert bjórúrvalið sem fyrir var hjá stóru framleiðendunum Ölgerðinni og Vífilfelli.

Frá 2004 hefur sala á bjór aukist um 4,3-8,1% á ári samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR, þó árið í ár virðist geta orðið undantekning þar á – a.m.k. var sala á bjór 0,3% minni á tímabilinu janúar til nóvember en árið á undan. Heildarsamdráttur í sölu áfengis á tímabilinu var hins vegar 1,8%.

Árið 2008 voru 20.381.000 lítrar af áfengi seldir hér á landi. Þar af voru lítrarnir af bjór 15.889.000 talsins, sem svarar til 78% af heildarsölu áfengis í landinu. Það prósentuhlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt frá 2004 og er því ekki hægt að álykta annað en að bjórframleiðendur veðji á réttan hest.

Þegar úrval þess bjórs sem hér er á markaði er skoðað sést að hlutfall íslenska bjórsins er 30-40% vörunúmera. Hver eining hefur sitt númer, sama tegund seld á flösku og í tveimur dósastærðum hefur þannig þrjú númer. Íslensku vörunúmerin sl. ár hafa að jafnaði verið 40-50 og bendir óformleg könnun á vefsíðu ÁTVR til þess að að baki þeim númerum séu 30 alíslenskar tegundir, og er jólabjórinn vissulega hluti af þeim. Raunar er bjór frá Carlsberg og Tuborg einnig flokkaður sem íslenskur og bætast þá við þrjár tegundir.

Meðvitaðir um að velja íslenskt

Séu magntölur skoðaðar sést að þó íslensku vörunúmerin séu innan við helmingur heildarfjölda er salan mun meiri. Árið 2008 voru 68% af seldum bjór íslensk og hefur hlutfall innlendra framleiðenda á markaðnum vaxið jafnt og þétt frá 1998 er það var 52%. Raunar hefur hlutfallið ekki farið niður fyrir 50% frá því að bjórinn var leyfður ef frá eru talin árin 1990 og 1991 er það var 44% og 46%. Þess ber þó að geta að í sölutölum ÁTVR var bjór skilgreindur íslenskur ef hann var átappaður hér á landi, en að sögn Einars S. Einarssonar, framkvæmdastjóra sölu- og framkvæmdasviðs ÁTVR, virðist bjór ekki lengur vera fluttur inn til átöppunar.

Þó tölur um hlutfall íslenskrar bjórsölu liggi ekki fyrir fyrir árið 2009 má telja nokkuð líklegt að hlutur innlendra framleiðanda á markaðinum hafi vaxið enn frekar. Júlíus Steinarsson, vínráðgjafi í Heiðrúnu, telur slíkt a.m.k. ekki ólíklegt. „Maður hefur það á tilfinningunni, þó ég hafi svo sem ekkert mælanlegt í höndunum, að flestir reyni að velja jafn mikið íslenskt og hægt er,“ segir hann. Fólk hafi orð á því við innkaupin. „Það sama á við um fyrirtæki og stofnanir, þegar þau kaupa inn fyrir veislur eru þau líka gjarnan með íslenskt á boðstólum.“

„Rennur allt út“

Gæði og gott vatn eru helstu ástæður þeirra vinsælda sem íslenski bjórinn nýtur hjá landanum að mati Agnesar Sigurðardóttur, sem stofnaði Bruggsmiðjuna Árskógsströnd ásamt manni sínum Ólafi Þresti Ólafssyni.

„Það eru fyrst og fremst gæðin og svo okkar gríðarlega góða vatn,“ segir Agnes. „Annars held ég að í dag sé fólk líka meðvitað um að velja íslenskt,“ bætir hún við. Aukin sala hefur líka verið í bjórnum frá Bruggsmiðjunni eftir bankahrunið, þótt 0,3% samdráttur kunni að vera í heildarbjórsölu fyrstu 11 mánuði þess árs.

Framleiðslugeta Bruggsmiðjunnar er 500.000 lítrar á ári, en fyrirtæki var „fyrsta litla brugghúsið“ hér á landi, eins og hún bendir á, og í upphafi var framleiðslugetan, árið 2006, 170.000 lítrar. „Það hreinlega rennur allt út núna,“ segir Agnes.