Víkverji er eins og flestir vita afskaplega þakklátur fyrir allt sem vel er gert og lítilþægur, kvartar sárasjaldan yfir nokkrum hlut, að minnsta kosti ekki um jólin. Hann er hissa á því hvað fáir taka hann til fyrirmyndar og skilur ekki neitt í þessu.

Víkverji er eins og flestir vita afskaplega þakklátur fyrir allt sem vel er gert og lítilþægur, kvartar sárasjaldan yfir nokkrum hlut, að minnsta kosti ekki um jólin. Hann er hissa á því hvað fáir taka hann til fyrirmyndar og skilur ekki neitt í þessu. Oft þakkar hann Skaparanum fyrir að vera ekki eins og þetta fólk.

Stundum rekst hann á fólk sem kvartar yfir jóladagskrá ríkissjónvarpsins. Það gerðist í gær, en óneitanlega gladdi það hjarta Víkverja að vinkona hans, sem sagðist ekki hafa fundið neitt sem sig langaði að horfa á, sagðist samt vera þakklát.

„Í staðinn hef ég haft nægan tíma til að lesa allar bækurnar sem ég fékk í jólagjöf. Hver veit, kannski tekst sjónvarpinu að gera okkur aftur að raunverulegri bókaþjóð,“ sagði hún og var býsna sátt.

Hvað sem því líður var úr nógu að velja í bókaflóðinu. Saga Snorra Sturlusonar er þykkt og mikið rit en áreiðanlega vel unnin. Höfundinum tekst vonandi að koma því vel til skila að íslensku höfðingarnir á 13. öld voru ekki einhverjir afdalakarlar með tað í skegginu og eilífa sultardropa í nefinu. Þetta voru heimsmenn sem þekktu ágætlega klassískar bókmenntir og höfðu kynnst straumum samtímans.

Þeir voru margir hirðmenn Noregskonungs og hefðu ekki fengið þann heiður ef þeir hefðu bara verið einhverjir óuppdregnir mörlandar.

Víkverji las nýlega 50 ára gamlar frásagnir nokkurra afkomenda þeirra Íslendinga sem fluttu vestur um haf á seinni hluta 19. aldar. Og lýsingin á Klettafjallaskáldinu Stephan G. Stephanssyni kallar ekki bara fram mynd af fátækum bónda með litla skólamenntun heldur glæstum höfðingja sem réð yfir jafn miklum ef ekki enn meiri andans auði en Snorri karlinn.