FJÁRLAGANEFND Alþingis barst á Þorláksmessu bréf þar sem breska lögmannsstofan Mishcon de Reya svarar gagnrýni Steingríms J. Sigfússonar á álit stofunnar á Icesave-samningnum.
Meðal þess sem segir í bréfinu er að stofan hafi rætt það við ríkisstjórnina að leynd verði létt af gögnum er varða ráðgjöf stofunnar. Það hafi ekki verið gert.

Þá segir stofan að lögmenn hennar hafi kynnt sér alla hliðarsamninga málsins, meðal annars sáttargerð við Breta sem Steingrímur sagði að útlit væri fyrir að lögmennirnir hefðu ekki kynnt sér.

Loks neitar stofan því að í áliti hennar felist að verra sé að dráttur verði á málalokum Icesave en að samþykkja samninginn eins og hann liggur fyrir, enda verði Alþingi sjálft að meta það.

Spurður um svarbréf Mishcon de Reya segist Steingrímur ekki hafa lesið bréfið og hann ætli sér ekki að standa í deilum við lögmennina.

Hann segist ekki gera sér grein fyrir til hvers stofan vísi þegar hún ræðir um gögn eða ráðgjöf sem ekki hafi verið létt leynd af. „Ég veit ekki annað en að þau gögn sem máli skipta, og tengjast þeirri vinnu sem þeir unnu fyrir samninganefndina í mars, séu öll aðgengileg á island.is. Og þau eru örugglega öll í möppum þingmanna.“ hlynurorri@mbl.is