— Reuters
ANDÓFSMENN sjást hér berjast við lögreglu á götum Teheran, höfuðborgar Írans, í gær. Minnst fjórir féllu í átökunum sem eru þau hörðustu í meira en hálft ár. Var frændi andstöðuleiðtogans og forsetaframbjóðandans Mir Hosseins Mousavis meðal hinna...

ANDÓFSMENN sjást hér berjast við lögreglu á götum Teheran, höfuðborgar Írans, í gær. Minnst fjórir féllu í átökunum sem eru þau hörðustu í meira en hálft ár. Var frændi andstöðuleiðtogans og forsetaframbjóðandans Mir Hosseins Mousavis meðal hinna föllnu.

Um 300 manns voru handteknir, að sögn Ahmads Reza Radans aðstoðarlögreglustjóra sem staðfesti að fjórir hefðu týnt lífi, þrír þeirra af slysförum. Einn hefði fallið fyrir byssukúlu en lögreglan hefði ekki beitt skotvopnum.

Opinbera fréttastofan Fars sakaði erlenda fjölmiðla um að æsa til óeirða en svartir reykjarbólstrar stigu til himins yfir borginni. Á vefsíðum róttæklinga voru sýnd myndskeið þar sem særðir mótmælendur voru bornir burt af götum Teheran. Á einni vefsíðunni sagði að lögreglumenn hefðu neitað að hlýða fyrirskipunum um að skjóta á mótmælendur. Mótmælendur hrópuðu „Þetta er mánuður blóðsúthellinga“ og kröfðust þess að æðstaklerki Írans og voldugasta manni landsins, ajatollah Ali Khamenei, yrði steypt af stóli. kjon@mbl.is