Ingvi Hrafn Á skjá.
Ingvi Hrafn Á skjá. — Morgunblaðið/RAX
Öll jólabörn vita að innihaldið skiptir meira máli en umbúðirnar. Herfilega ljótur jólapakki getur geymt mikla gersemi sem gefin er af ást og umhyggju. Ullarsokkar eru t.d.

Öll jólabörn vita að innihaldið skiptir meira máli en umbúðirnar. Herfilega ljótur jólapakki getur geymt mikla gersemi sem gefin er af ást og umhyggju. Ullarsokkar eru t.d. fín gjöf þótt þeir kosti ekki mikið, enda er það ekki verðmiðinn sem ræður því hvort gjöf er góð. Og sokkarnir eru góðir þótt þeim hafi verið pakkað inn í ljótan jólapappír.

Sjónvarpsstöð ein ber skammstöfunina ÍNN. Þar á bæ eru menn ekkert að spreða þegar kemur að sviðsmyndum og hönnun. Nei, innihaldið skiptir öllu máli og fyrir vikið eru sviðsmyndir allt að því fátæklegar. Enda öll áhersla lögð á samræður, ekki sjónarspil. Sjónvarpsstjórinn Ingvi Hrafn Jónsson stýrir á ÍNN þættinum Hrafnaþingi, eina þættinum með sviðsmynd sem virðist að einhverju leyti hönnuð. Í þættinum spjallar Ingvi Hrafn við hina og þessa og skiptir þá engu hvort hann er sjálfur í myndveri. Nei, stundum er Ingvi í beinni á tölvuskjá í þættinum en viðmælandinn mættur í myndver. Þetta er harla óvenjulegt, oftast er gripið til þess að hafa viðmælanda í beinni á tölvu- eða sjónvarpsskjá, ef hann kemst ekki í þáttinn. Í þessu tilfelli kemst þáttarstjórnandinn ekki í þáttinn og er því á tölvuskjá í lítilli upplausn. Viðmælandinn talar við Ingva Hrafn á tölvuskjá.

Nú bíður undirritaður spenntur eftir því að hvorki stjórnandi né viðmælandi komist í þáttinn. Þá verða væntanlega báðir í beinni, á tveimur tölvuskjám sem stillt verður á móti hvor öðrum. Eldheitar samræður tölvuskjáa á milli á sjónvarpsskjánum. Þegar reynsla er komin á það er svo hægt að hafa hringborðstölvuskjáaumræður. Spennandi tímar.

Helgi Snær Sigurðsson