Birna Bjarnadóttir fæddist í Stykkishólmi 15. ágúst 1938, hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 15. desember sl. Foreldrar hennar voru Jófríður Sigurðardóttir, f. 13. desember 1916, d. 28. mars 1943, og Bjarni Sveinbjörnsson, f. 20. mars 1916, d. 14. október sl., eftirlifandi kona hans er Anna Kristjánsdóttir. Birna ólst frá fimm ára aldri upp hjá móðursystur sinni, Aðalheiði Sigurðardóttur, f. 10. júlí 1912, og hennar manni, Stefáni Siggeirssyni, látinn. Hálfsystir Birnu samfeðra er Jóhanna Bjarnadóttir, f. 23. febrúar 1947.

Hinn 25. október 1958 giftist Birna Sveinbirni Sveinssyni, f. 25. apríl 1936, d. 26. maí 2007. Börn þeirra eru 1) Jófríður, f. 17. apríl 1959, maki Þráinn Hafsteinsson, börn þeirra eru Bjarni, f. 2. ágúst 1987, Hafsteinn, f. 13. júlí 1994, þau skildu. 2) Aðalheiður, f. 16. mars 1964, maki Geir Sigurðsson, börn þeirra eru Sveinbjörn, f. 29. apríl 1986, Snævar Geir, f. 19. júní 1987, og Inga Stefanía, f. 29. desember 1989, þau skildu. 3) Bjarni, f. 14. apríl 1965, d. 10. júní 1969. 4) Stefán Þór, f. 29. júní 1970, maki Hjörtfríður Steinunn, börn þeirra eru Birna Rós, f. 15. nóvember 1996, Guðlaugur Orri, f. 9. ágúst 1998, og Bjarni Þór, f. 9. maí 2004.

Birna ólst upp í Stykkishólmi. Hún bjó fyrstu hjúskaparárin með Sveinbirni í Ólafsvík en þau fluttu síðan í Stykkishólm þar sem þau bjuggu til ársins 1991 er þau fluttu til Reykjavíkur.

Útför Birnu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, mánudaginn 28. desember, og hefst afhöfnin kl. 13.

Elsku mamma, mig langar til að kveðja þig með nokkrum orðum. Síðustu ár voru þér frekar erfið þar sem veikindin voru smám saman að ná yfirhöndinni, en samt varstu alltaf svo kát þegar ég kom til að hitta þig og alltaf tilbúin að koma í bíltúr eða í heimsókn til okkar Fríðu og krakkanna.

Það má segja að þinn innri styrkur hafi best sýnt sig þegar þú ákvaðst að koma og vera við jarðarför pabba þíns í október sl. þegar við fórum vestur í Stykkishólm og þú stóðst þig eins og hetja. Það var gaman að sjá hvað þér fannst gaman að koma í Stykkishólm og hitta mikið af fólki sem þú þekktir.

Núna veit ég að þú ert komin á góðan stað þar sem þér mun líða vel.

Hvíl í friði elsku mamma mín.

Þinn

Stefán Þór.

Nú þegar komið er að kveðjustund hjá þér Birna mín koma margar minningar upp í hugann. Mín allra fyrsta minning um þig er þegar ég hitti þig í fyrsta sinn. Ég var á leiðinni til Ólafsvíkur fyrir jólin 1994 og þig vantaði að koma skreytingum til ættingja í Ólafsvík. Stefán sendi mig heim til ykkar í Lindarselið til að sækja skreytingarnar og þar biðuð þið Bjössi eftir mér með hádegismat. Ég man hvað mér fannst þú glæsileg kona, vel tilhöfð og þægileg í viðmóti og svona varstu alltaf.

Fljótlega eftir þessi jól var mér boðið að flytja á neðri hæðina hjá ykkur og var strax mikill samgangur á milli hæða. Þú vildir allt fyrir okkur gera, hjálpaðir mikið til og sérstaklega þegar Birna Rós fæddist, en ég var þá á síðasta árinu mínu í Þroskaþjálfaskólanum. Ég kunni ekki alltaf að meta hjálpsemi þína en ég hefði ekki getað þetta án þín. Þú varst alveg sérfræðingur í því að finna það út ef einhverjum leið ekki vel eða þurfti á hjálp að halda og varst alltaf fyrsta manneskja á staðinn til að hjálpa til eða hughreysta.

Líf þitt hefur ekki alltaf verið dans á rósum en þú lést aldrei á því bera. Nú ertu laus úr þessum fjötrum sem þú varst í síðustu æviárin þín og ert komin til Bjössa þar sem þér leið alltaf best. Við munum sakna þín en höldum minningu þinni á lofti. Hvíl í friði elsku Birna.

Þín tengdadóttir,

Hjörtfríður.

Kæra Birna mín.

Þegar ég hugsa um allar þær stundir sem við höfum átt saman minnist ég sérstaklega þess þegar ég hitti þig fyrst, taugaóstyrkur tilvonandi tengdasonur ykkar Bjössa, og ég hellti yfir mig fyrsta kaffibollanum sem þú réttir mér. Það létti verulega á spennunni og við hlógum bara. Þú tókst á móti mér með opnum örmum og samband okkar hefur verið einstaklega gott allt frá byrjun. Mér fannst æðislegt þegar þú og Bjössi báðuð mig um að taka hundinn ykkar, Bjart, með mér í fjallgöngur til þess að hann myndi e.t.v. verða aðeins rólegri svo hann væri húsum hæfur og léti skóna þína í friði. Þið voruð alltaf til í að passa krakkana og voruð alveg einstaklega góð við þau. Mér fannst gott að geta hjálpað ykkur síðan við það að laga og breyta heimilinum ykkar sem þið fjárfestuð í í gegnum tíðina. Ég kveð þig núna Birna mín með sterkar og góðar minningar í huganum og ég vona að þið Bjössi séuð saman núna á betri stað.

Kær kveðja,

Geir.

Elsku Birna amma.

Það er erfitt að kveðja þig eftir að hafa átt þig að alla tíð og þrátt fyrir veikindin þín síðastliðin ár. Þú hefur alltaf verið svo góðhjörtuð og skemmtileg amma og tengdamamma. Það var alltaf jafn gott að koma í heimsókn til þín og Bjössa afa. Við munum alltaf muna eftir þér sem góðri og hlýrri manneskju og okkur þykir ákaflega vænt um þig.

Ég man sérstaklega eftir því þegar þú reyndir að kenna mér að prjóna og þú hlóst allan tímann að mér vegna þess að ég hélt svo vitlaust á prjónunum. Það var líka alltaf best að fara með þér að versla, vegna þess að ég þurfti ekki annað en að horfa á það sem mig langaði í þá varst þú búin að kaupa það fyrir mig. Okkur systkinunum þótti líka rosalega gaman alltaf að gista hjá ykkur í Lindarselinu og horfa á teiknimyndir og síðan fórum við alltaf í Kolaportið á sunnudögum. Jólin í Lindarselinu eru líka sérstaklega minnisstæð. Ég get ekki hugsað mér fullkomnari jól heldur en með ykkur í Lindarselinu og afi les á pakkana. Ég man líka vel eftir sumarbústaðnum ykkar í Skorradal og skemmtilegu rólunni sem hékk niður úr pallinum. Allt eru þetta dýrmætar minningar sem ég mun varðveita og ég er svo ánægð að hafa átt svona góða ömmu, þótt ég þurfi að kveðja þig snemma. Ég elska þig og mun sakna þín amma mín.

Ástarkveðja,

Inga Stefanía.

Elsku amma Birna. Við söknum þín rosalega mikið. Þú varst alltaf svo blíð og hjálpsöm, þú vildir hjálpa öllum. Þú varst einstök kona og verður það alltaf.

Það var svo skemmtilegt að koma í heimsókn til þín og þægilegt. Nú ertu komin á góðan stað þar sem þér á eftir að líða vel. Eins og Bjarni Þór sagði í dag: „Nú er amma hamingjusöm af því að hún er búin að hitta afa Bjössa aftur og þau eru kannski á balli að dansa saman.“

Minning þín lifir og hvíldu í friði elsku amma.

Birna Rós, Guðlaugur Orri og Bjarni Þór.

Skömmu fyrir jól lést kær mágkona pabba og vinur okkar allra í fjölskyldunni, Birna Bjarnadóttir frá Stykkishólmi. Síðustu ár sín dvaldi Birna á Hrafnistu í Reykjavík.

Við sem teljumst til fjölskyldunnar í Skálholti 11 hér í Ólafsvík minnumst einstaklega hlýrrar og ljúfrar konu sem Birna var að sönnu.

Pabbi og mamma kveðja kæra mág- og svilkonu en umfram allt góðan vin og hjartgóða samferðamanneskju.

Foreldrar mínir, við systkinin og fjölskyldur okkar eigum góðar minningar um Birnu – jafnan tengdar fjölskylduferðum í heimsókn til Birnu og Bjössa frænda á fallegt heimili þeirra, fyrst á Aðalgötunni og síðar við Sjávarflötina í Hólminum.

Minningar okkar um heimsóknirnar inn í Hólm eru um einstaklega hlýjar móttökur á heimili þeirra hjóna. Auk kosta og kynja, háværra hlátraskalla og fjörlegra umræðna – ekki síst þegar minnst var liðinna atvika úr mannlífinu – minnumst við ævinlega ríkulegs veisluborðs Birnu við þessi tilefni.

Sjálfur á ég í barnsminningu minni atvik frá þeim tíma sem þau hjónin höfðu tekið við rekstri „Bensó“, sameiginlegs umboðs olíufélaganna í Stykkishólmi, af föður Birnu. Þá fékk ég að fara eina ferð með Bjössa á olíubílnum á Skógarströndina, því þá voru flestöll hús kynt með olíu. Bjössi og hans líkar fóru þá vítt og breitt um Hólminn og nærliggjandi sveitir. Þetta var eftirminnileg ferð. Bjössi sagði mér nöfn bæja, örnefna og ábúenda í sveitinni. Sérstaklega var gaman að fylgjast með samskiptum Bjössa við bændur og búalið. Þau voru af þessum sökum og mörgum öðrum því vinmörg, Birna og Bjössi!

Við kvöddum Bjössa frænda hinstu kveðju eigi alls fyrir löngu. Nú kveðjum við Birnu Bjarnadóttur með söknuði en kærum þökkum fyrir samvistarstundirnar.

Við biðjum algóðan Guð að hugga og styrkja börn þeirra hjóna í sorg sinni – nú yfir móðurmissinum við upphaf hátíðar ljóss og friðar – þau Jófríði, Aðalheiði og Stefán Þór, maka þeirra og börn.

Blessuð veri minning Birnu Bjarnadóttur.

F.h. foreldra minna, bræðra og fjölskyldna okkar,

Sveinn Þór Elinbergsson.

HINSTA KVEÐJA

Ég kann ekki kærari kveðju,

að kasta jafngöfugri sál,

sem tárin mér lið legðu,

að temja í bundið mál.

Sveinbjörn Geirsson.