Sigurjón Gunnarsson
Sigurjón Gunnarsson
Frá Sigurjóni Gunnarssyni: "ÞAÐ ER ljóst, í hinum örvæntingarfulla hrunadansi útrásar, peningahyggju og siðspilltra stjórnmála, að það er stór hópur týndra sálna á Íslandi. Þessar týndu sálir ráfa um í algjöru myrkri og reyna að finna sér sess í þjóðfélaginu á ný."

ÞAÐ ER ljóst, í hinum örvæntingarfulla hrunadansi útrásar, peningahyggju og siðspilltra stjórnmála, að það er stór hópur týndra sálna á Íslandi. Þessar týndu sálir ráfa um í algjöru myrkri og reyna að finna sér sess í þjóðfélaginu á ný. En það er hægara sagt en gert. Með svöðusár er þessum hópi smátt og smátt að blæða út. Landsflótti blasir við og eignastaða þeirra sem eftir sitja brennur upp á báli verðtryggingar og skattpíningar. Í fullkominni örvæntingu nútíðar og kolsvartri framtíð virðist hvergi ljós að sjá.

Draugar, allillskeyttir, herja á úr öllum áttum og hrifsa til sín það sem eftir hangir á beinunum. Öll hugsun brotin og brömluð eftir hrikalegan atgang frjálshyggju og óstjórnar þar sem græðgi og siðspilling léku aðalhlutverkin. Eftir standa rúnum ristar sálir ráfandi um brunarústir í leit að haldreipi. En nútíð og framtíð gefa engin grið.

Til að finna þjóðarsálina aftur verður að fara tugi ára aftur í tímann. Þar, í myrkviðum fortíðar, logar ljósið sem íslenska þjóðin þráir mest að finna þessa dagana. Þar í fylgsnum lúrir heiðarleiki, ekki langt frá má finna drengskap, samvisku má þar einnig sjá og ef vel er að gáð lúrir þar ást. Þarna mun íslenska þjóðin finna aftur þær dyggðir sem hún týndi árið 2007. Þegar þessar dyggðir hafa verið ræktaðar og hlúð að þeim mun íslenska þjóðin aftur finna sálina sem hún brenndi á bálkesti auðvaldshyggju og græðgi.

SIGURJÓN GUNNARSSON,

matreiðslumeistari.

Frá Sigurjóni Gunnarssyni