— Morgunblaðið/RAX
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is ANDRÉS Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, telur óraunhæft að búið verði að verðmerkja allar vörur 2. janúar þegar hækkun á virðisaukaskatti kemur til framkvæmda.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

ANDRÉS Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, telur óraunhæft að búið verði að verðmerkja allar vörur 2. janúar þegar hækkun á virðisaukaskatti kemur til framkvæmda. Það sé því ekki hægt að komast hjá því að munur verði á hilluverði og kassaverði til að byrja með.

Um áramót hækkar virðisaukaskattur úr 24,5% í 25,5%. Þessi breyting hefur strax áhrif á verð til neytenda. Virðisaukaskattur á vörum sem bera 7% virðisaukaskatt breytist ekki en þetta eru allar almennar matvörur, veitingar og gisting, bækur, blöð og hljómdiskar, raforka og heitt vatn og samgöngur. Áformað var að leggja á 14% skatt á tilteknar vörur, en hætt var við það.

1. september sl. urðu breytingar á vörugjöldum þegar svokallaður sykurskattur var lagður á. Mjög óverulegar breytingar verða á vörugjöldum nú um áramót.

„Það er alveg ljóst að það er ekki hægt að tryggja að saman fari hillumerking og vörumerking fyrstu tvær til þrjár vikur janúarmánaðar,“ sagði Andrés. Hann sagði að það væru fjórir virkir vinnudagar sem liðu frá því lögin voru samþykkt þar til þau kæmu til framkvæmda. Það væri ekki hægt að klára allar verðbreytingar á svo skömmum tíma. Eðlilegt væri að verslanir birtu almenna tilkynningu til viðskiptavina sinna þar sem athygli væri vakin á þessu vandamáli. Tryggvi Axelsson, framkvæmdastjóri Neytendastofu, sagðist hafa skilning á þessu og tekur undir að það væri sjálfsögð kurteisi við neytendur að verslanir settu upp tilkynningu á áberandi stað þar sem athygli væri vakin á að það gæti verið munur á hilluverði og kassaverði „sem nemur þessari skattbreytingu“.

Hlutverk Neytendastofu er m.a. að fylgjast með verðmerkingum. Tryggvi sagði að stofnunin myndi fylgjast með því hvernig skattahækkunin kæmi fram í verðlagi til neytenda. „Við vonum að verð verði ekki hækkað meira en sem nemur þessum skattbreytingum.“