Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is SVO getur farið að reglum um birtingu skattskráa í Noregi verði breytt vegna þess að glæpamenn eru sagðir nota upplýsingarnar.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

SVO getur farið að reglum um birtingu skattskráa í Noregi verði breytt vegna þess að glæpamenn eru sagðir nota upplýsingarnar. Lögreglan í tveim umdæmum hefur rannsakað málið og telur að vísbendingar séu um slíka misnotkun, að sögn Aftenposten.

„Könnunin bendir til þess að líklegt sé að skattskrárnar séu notaðar til að skipuleggja ýmiss konar glæpi, til dæmis rán, hótanir, þjófnaði og svik,“ segir í skýrslu norsku lögreglunnar til dómsmálaráðuneytisins í Ósló. Nefnt er m.a. dæmi um bréf til nokkurra tekjuhárra Óslóbúa í október. Þeim var hótað öllu illu ef þeir borguðu ekki stórar summur.

Deilt er um birtingu skattskránna á hverju ári í Noregi eins og hér á landi. Sumum finnst óþarfi að leyfa öllum að hnýsast í mál sem í reynd komi aðeins við embætti skattstjóra og umræddum skattborgara. Á móti eru sett fram þau rök að aðgangur að skránum auki aðhald og dragi þannig úr tilraunum til skattsvika.

Ætla að kanna málið vandlega

Dómsmálaráðuneytið norska, sem bað lögregluna um að rannsaka hvort glæpamenn notuðu upplýsingarnar, sendi gögnin áfram til fjármálaráðuneytisins sem hyggst nota þau sem grundvöll ef ákveðið verður að breyta reglum um birtinguna. Í fjármálaráðuneytinu segjast menn ætla að fara í saumana á þessu máli.

„Komi í ljós að gera þurfi breytingar mun ráðuneytið stefna að því að þær taki gildi áður en skattskrár verða lagðar fram haustið 2010,“ segir í svari fjármálaráðuneytisins.