Einbeitt Marthe Sördal úr Fram reynir að brjótast framhjá Alinu Tamasan og Unni Viðarsdóttur úr Stjörnunni.
Einbeitt Marthe Sördal úr Fram reynir að brjótast framhjá Alinu Tamasan og Unni Viðarsdóttur úr Stjörnunni. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„ÉG held að sumt af því sem ég sagði í hálfleik við stelpurnar sé ekki hægt að hafa eftir á prenti,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari kvennaliðs Fram í handknattleik, eftir að lið hans hafði lagt Stjörnuna 26:24 í undanúrslitum deildabikars HSÍ...

„ÉG held að sumt af því sem ég sagði í hálfleik við stelpurnar sé ekki hægt að hafa eftir á prenti,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari kvennaliðs Fram í handknattleik, eftir að lið hans hafði lagt Stjörnuna 26:24 í undanúrslitum deildabikars HSÍ í gærkvöldi. Stjarnan var 16:12 yfir í leikhléi og gerði fyrstu tvö mörkin í þeim síðari þannig að allt virtist stefna í sigur Garðbæinga, en ræða Einars virðist hafa haft sitt að segja og Framarar mættu betur stemmdir til síðari hálfleiks og uppskáru sætan sigur með mikilli baráttu.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

„ÉG var verulega ósáttur við liðið í fyrri hálfleik þannig að ég þurfti aðeins að skerpa á þessu í hálfleik. Stelpurnar svöruðu því mjög vel og ég var gríðarlega sáttur með leik þeirra í þeim síðari,“ sagði Einar.

Vörn Fram small saman í síðari hálfleiknum og Íris Björk Símonardóttir hrökk í gang í markinu. Staðan breyttist úr 18:12 í 19:20 og síðan 21:23. En Stjarnan jafnaði 24:24 áður en Karen Knútsdóttir skoraði flott mark af línunni með því að taka frákast af miklu harðfylgi og Hafdís Hinriksdóttir gulltryggði sigurinn með marki á lokasekúndunum. Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir átti fínan leik hjá Fram sem og Karen. Hjá Stjörnunni var Florentina Stanciu góð í markinu og Harpa Sif Eyjólfsdóttir átti ágætan leik.

Stjarnan – Fram 24:26

Íþróttahúsið við Strandgötu, deildabikar kvenna, undanúrslit, sunnudaginn 27. desember.

Gangur leiksins : 1:0, 1:2, 3:2, 5:3, 7:6, 10:6, 11:12, 16:12 , 18:12, 18:16, 19:20, 21:23, 23:23, 24:24, 24:26.

Mörk Stjörnunnar : Alina Tamasan 10/6, Harpa Sif Eyjólfsdóttir 6, Esther Ragnarsdóttir 3, Kristín Clausen 2, Þórhildur Gunnarsdóttir 2, Elísabet Gunnarsdóttir 1.

Varin skot : Florentina Stanciu 22/3 (þar af 7 til mótherja).

Utan vallar : 4 mínútur.

Mörk Fram : Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 7, Karen Knútsdóttir 6, Stella Sigurðardóttir 4/2, Ásta Birna Gunnarsdóttir 3/1, Hafdís Hinriksdóttir 2, Marthe Sördal 2, Anna María Guðmundsdóttir 2.

Varin skot : Íris Björk Símonardóttir 15/1 (þar af 6 til mótherja).

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar : Gunnar Jarl Jónsson og Þorleifur Árni Björnsson, Ágætir.

Áhorfendur : Um 250.