Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Fjárlaganefnd Alþingis fékk á Þorláksmessu bréf frá breskri lögmannsstofu, Mishcon de Reya, sem nefndin hafði leitað til um sérfræðiálit. Bréfið er svar við ásökunum Steingríms J.

Fjárlaganefnd Alþingis fékk á Þorláksmessu bréf frá breskri lögmannsstofu, Mishcon de Reya, sem nefndin hafði leitað til um sérfræðiálit. Bréfið er svar við ásökunum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem hafði í viðtölum gert allt til að grafa undan áliti stofunnar.

Einhvern tímann hefði slík árás ráðherra ríkisstjórnar á erlenda sérfræðinga sem starfa fyrir Alþingi þótt tíðindum sæta. Atburðarásin í Icesave-málinu hefur hins vegar verið svo ævintýraleg að nú kemur ekkert á óvart.

Það hefði þótt tíðindum sæta að ráðherra reyndi að gera lítið úr álitinu með því að halda því fram að lögmannsstofan væri óþekkt, en hún á sér langa sögu og nýtur virðingar á Englandi og í Wales.

Enn sérkennilegra var að ráðherra skyldi halda því fram að lögmannsstofan hefði ekki haft aðgang að tilteknum hliðargögnum, þegar í svari stofunnar kemur skýrt fram að svo hafi verið.

Síðast en ekki síst hefði einhvern tímann talist alvarlegt að ráðherra rangtúlki afstöðu sem fram kemur í sérfræðiáliti. Mishcon de Reya þarf sérstaklega að leiðrétta þá missögn fjármálaráðherra að stofan telji verra að tefja málið en að afgreiða það strax frá Alþingi.

Hvernig málstað hefur ráðherra að verja sem kemur fram með slíkum hætti? Og hvernig má það vera að slíkur málflutningur ráðamanna komi ekki lengur á óvart?