Stöðvaður FH-ingarnir Guðni Már Kristinsson og Sigurgeir Árni Ægisson náðu að halda aftur af Árna Þór Sigtryggssyni í þetta skiptið. Akureyringarnir unnu hinsvegar sannfærandi sigur og mæta Haukum í úrslitaleiknum í kvöld.
Stöðvaður FH-ingarnir Guðni Már Kristinsson og Sigurgeir Árni Ægisson náðu að halda aftur af Árna Þór Sigtryggssyni í þetta skiptið. Akureyringarnir unnu hinsvegar sannfærandi sigur og mæta Haukum í úrslitaleiknum í kvöld. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við erum vanir að byrja leikina þegar korter er búið af þeim, en núna byrjuðum við aldrei þessu vant mjög vel,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar, eftir að liðið hafði tryggt sér nokkuð öruggan 35:26-sigur á FH í undanúrslitum deildabikars karla í handknattleik í gær.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

„VIÐ lögðum upp með að byrja vel og síðan að halda einbeitingunni því maður vill auðvitað ekki lenda í einhverju veseni í leikjum þegar liðið hefur náð góðri forystu. Þetta gerðist samt í byrjun og þeir komust inn í leikinn á nýjan leik. En þetta er agi sem kemur kannski hjá þessum strákum eftir tíu ár,“ sagði Rúnar.

Eftir að FH gerði fyrsta mark leiksins komu sex í röð frá Akureyringum sem léku á als oddi og voru eldfljótir að refsa Hafnfirðingum fyrir hver mistök sem þeir gerðu, brunuðu upp í hraðaupphlaup og skoruðu.

„Strákarnir voru fínir. Við ætluðum að ná hangikjötinu af í dag og það er farið og svo fer ísinn af í úrslitaleiknum,“ sagði Rúnar léttur í lund eftir sigurinn í gær.

Heimir Örn er meiddur

Heimir Örn Árnason lék ekki með Akureyri að þessu sinni. „Það er sin í ilinni á honum sem er að hvekkja hann og hann er búinn að vera svona í mánuð. Það þarf að fara að panta varahluti ef þetta lagast ekki,“ sagði Rúnar.

Hann sagði úrslitaleikinn í kvöld leggjast vel í sig. „Haukar tóku okkur í kennslustund fyrir norðan fyrir mánuði og við verðum að gera betur í þessum leik.

Það er frábært að spila í þessu húsi og fyrir okkur sem komum svona langt að er frábært að fá tækifæri til að spila og það er hægt að gera þetta mót mjög flott,“ sagði Rúnar.

Akureyri var með undirtökin allan leikinn og þótt FH-ingar hafi náð að minnka muninn niður í eitt mark nokkrum sinnum í síðari hálfleik komust þeir ekki nær og sex mörk upp úr miðjum síðari hálfleik gerðu út um vonir FH um sigur.

„Ég held að strákarnir hafi ekki haft trú á þessu í byrjun en síðan þegar þeir föttuðu að þeir gætu þetta alveg þá sýndu þeir kjark og þor í fimmtíu mínútur. En það er erfitt að elta eftir svona slaka byrjun,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari FH, sem tefldi fram mjög ungu liði vegna talsvert mikilla meiðsla í hópnum. „Það er gaman að strákarnir fá tækifæri og við hefðum endilega viljað spila líka á morgun, en af því verður víst ekki,“ sagði þjálfarinn.

FH – Akureyri 26:35

Íþróttahúsið við Strandgötu, deildabikar karla, undanúrslit, sunnudaginn 27. desember 2009.

Gangur leiksins : 1:0, 1:6, 4:6, 7:11, 13:18 , 15:21, 20:21, 22:23, 22:29, 25:31, 25:34, 26:35.

Mörk FH : Hermann Björnsson 8, Ólafur Gústafsson 8/1, Halldór Guðjónsson 3, Guðni Már Kristinsson 3/1, Reynir Jónasson 2, Ísak Rafnsson 1, Bjarki Jónsson 1.

Varin skot : Pálmar Pétursson 4 (þaraf 2 til mótherja), Daníel Andrésson 8 (þaraf eitt til mótherja).

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Akureyrar : Oddur Grétarsson 11/1, Jónatan Þór Magnússon 6/1, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Andri Snær Stefánsson 4, Geir Guðmundsson 2, Heiðar Þór Aðalsteinsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Árni Þór Sigtryggsson 1, Guðlaugur Arnarsson 1, Hreinn Þór Hauksson 1.

Varin skot : Hafþór Einarsson 15/2 (þaraf 5 til mótherja), Siguróli Magni Sigurðsson 2 (annað til mótherja).

Utan vallar : 4 mínútur.

Dómarar : Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson. Ágætur leikur hjá þeim.

Áhorfendur : Ríflega 500.