28. desember 1871 Skólapiltar í Reykjavík sýndu leikritið Nýársnóttina eftir Indriða Einarsson í fyrsta sinn. Leikritið var síðar sýnt við vígslu Þjóðleikhússins. 28. desember 1894 Ofsaveður gerði af vestri með allmiklum skaða.

28. desember 1871

Skólapiltar í Reykjavík sýndu leikritið Nýársnóttina eftir Indriða Einarsson í fyrsta sinn. Leikritið var síðar sýnt við vígslu Þjóðleikhússins.

28. desember 1894

Ofsaveður gerði af vestri með allmiklum skaða. Mikið sjávarflóð og hafrót var í Reykjavík, sjór gekk upp í Hafnarstræti og skemmdir urðu á húsum og skipum. Loftþrýstingur féll um meira en 60 millibör á einum sólarhring, sem er sjaldgæft.

28. desember 1964

Samgöngutruflanir urðu á höfuðborgarsvæðinu vegna snjókomu og hvassviðris. Lögreglan taldi þetta versta ástandið í mörg ár. Daginn eftir urðu sextíu ökumenn að yfirgefa bíla sína á leiðinni milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

28. desember 1967

Borgarspítalinn í Fossvogi var tekinn í notkun þegar fyrsti sjúklingurinn var lagður inn á lyfjadeildina. Skurðdeild var opnuð árið eftir.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.