Pétur Hafliði Ólafsson, fæddist í Stykkishólmi 10. febrúar 1920. Hann lést á líknardeild Landspítala Landakoti laugardaginn 5. des. sl.

Pétur var jarðsunginn frá Hallgrímskirkju 16. desember 2009.

Þú getur engu logið um ágæti Péturs, sagði jafnaldri hans, er ég leitaði upplýsinga um störf Péturs H. Ólafssonar að málefnum Félags eldri borgara í Reykjavík fyrr á árum. Hann var meðal stofnenda félagsins og kórsins og var lífið og sálin í hvoru tveggja, sagði viðmælandi minn.

Pétur H. Ólafsson var reyndar orðinn þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Á erfiðum tímum byrjaði hann ungur að vinna og lét laun sín renna beint til móður sinnar til stuðnings henni og mörgum systkinum. Hann hafði haft þann hátt á fram á fullorðinsár að láta móður sína hafa launaumslagið sitt óopnað.

Pétur fór snemma til sjós, var fyrst á togurum og síðar á farskipum og sýndi þá einatt mikla hugdirfsku. Kunnastur varð hann af ferð sinni á stríðsárunum er hann vann undir vélbyssuskothríð og tundurskeytum í skipalest þar sem aðeins fjögur af 37 skipum náðu höfn. Þegar komið var til Múrmansk stóð hann í rústabjörgun eftir loftárásir á borgina.

Um þessa lífsreynslusögu má lesa í Kröppum lífsdansi, ævisögu Péturs, sem Jónas Jónasson færði í letur. Þar skín í gegn ekki aðeins æðruleysi og þrautseigja heldur líka góðmennska hvort sem hann hjúkraði helsærðum skipsfélaga sínum á sjó eða átti við ótaminn fola í landi.

Pétur var einn af stofnendum Félags eldri borgara í Reykjavík árið 1986 og kórs eldri borgara, sat í stjórn félagsins og kórsins, hafði forgöngu um svokallað Opið hús og dansleiki þess og vann síðan mikið sjálfboðastarf um langt árabil.

Meðal annars stóð hann fyrir ferðalögum eldri borgara og var þar sem annars staðar mikill gleðigjafi. Í ferðunum tók hann bæði ljósmyndir og hreyfimyndir sem áfram bera vitni um starf Péturs á vettvangi félagsins.

Undir lokin annaðist hann miðasölu á dansleikjum í félagsheimili FEB í Stangarhyl. Hann var gerður að heiðursfélaga FEB í Reykjavík á 20 ára afmæli félagsins árið 2006.

Í félagsstarfi FEB lágu leiðir okkar saman. Þar fann ég að ekkert var ofsagt um það sem ég hafði heyrt um glaðværð og glettni Péturs sem ávallt hefði verið aðalsmerki hans í öllu starfi. Fyrir þau störf stendur félagið í þakkarskuld við Pétur H. Ólafsson og nánustu aðstandendur hans sem gerðu honum kleift að sinna umfangsmiklu sjálfboðastarfi í þágu félagsins og eldri borgara.

Fyrir hönd félagsins votta ég aðstandendum Péturs innilega samúð.

Unnar Stefánsson, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.

Kór Félags eldri borgara í Reykjavík kveður í dag fyrrverandi formann sinn, Pétur Hafliða Ólafsson.

Pétur, ásamt fleirum, var áhugamaður um stofnun kórs innan félagsins og á stofnári þess, 1986, gekk það eftir. Kór varð til, sem á þeim tíma þótti hreint ekki sjálfsagt mál og hefur hann starfað óslitið síðan.

Pétur sem sjálfur var músíkalskur og söngelskur, lagði kórnum til fallega tenórrödd sína frá upphafi.

Þetta reyndist farsælt upphaf og í dag er öflugt starf kóra eldri borgara um land allt.

Pétur átti þann draum að stofnað yrði landssamband þessara kóra og kemst það vonandi í framkvæmd fyrr en síðar.

Kór FEB í Reykjavík hefur ferðast mjög mikið og víða á ferli sínum. Pétur, sem var formaður kórsins yfir 15 ár, sá aldrei hindranir nema til að ýta þeim úr vegi og þannig kom hann þessu óskabarni sínu í söngferðir til margra landa auk ótaldra söngferða innanlands.

Einhverjar minnisstæðustu ferðir kórsins eru til Íslendingabyggða í Kanada 1998 og til Rússlands árið 2003. Í Pétursborg söng kór FEB með kór rússneskra eldri borgara sem lifað höfðu af umsátrið um borgina á stríðsárunum. Okkur eru minnisstæðar voldugar raddir þessa fullorðna fólks, sem hafði reynt margt og lagði tilfinningar sínar í sönginn. Það var áhrifamikið á að hlýða.

Fyrir Pétri, sem hafði sjómennsku að ævistarfi, rifjuðust upp minningar um hættuferðir yfir hafið með íslenskum fiskibátum og skipalestum til Murmansk og fleiri staða.

Pétur var félagshyggjumaður og vildi hag allra sem bestan. Hann bar lítilmagnann fyrir brjósti. Hjálpsamur var hann, kominn til skjalanna þar sem honum fannst þurfa og vissu ekki aðrir af en þeir sem nutu.

Hann var líka mikill sögumaður og kunni þá list að segja þannig frá vinum og samstarfsmönnum að persónur lifnuðu við fyrir augum manns.

Úr æsku sinni sagði hann kórfélögum frá því að alla morgna hafi hann vaknað eldsnemma og sungið hátt og mikið þar til móðir hans gaf honum eitthvað í svanginn.

Hann var græskulaus og glaðlyndi hans og hlýja smitaði frá sér.

Ekkert var raunar ómögulegt þegar Pétur var annars vegar.

Nú syngur Pétur Hafliði ekki lengur með okkur. Eftir snarpa viðureign við illkynja sjúkdóm, laut hann því sem við öll munum lúta og fór sáttur.

Við trúum að nú syngi hann með ástvinum sínum sem farnir eru á undan honum.

Og kannski ómar söngur og léttur hlátur fyrir eyrum okkar er við minnumst hans.

Við sendum börnum hans, barnabörnum og systkinum innilegar samúðarkveðjur.

Ég elska hafið æst, er stormur gnýr,

ég elska það, er kyrrð og ró þar býr.

Á djúpið blátt er bleikur máni skín.

Ég bláfjöll elska, er sáu ei augu mín.

Og hljóða nótt með stjarna blysin björt

og bjarma kvölds, er roðar húmský svört.

Ég elska söngsins angurmilda hreim,

ég elska hugans flug um víðan geim.

(Guðm. Guðmundsson.)

Hann að geyma

bið engla,

því ei snýr aftur

rekki sá til mannheima

er gleði gaf geði

og á sjálfum raunir reyndi

hann af guði falinn sé.

(K. Pje.)

F.h. Kórs Félags eldri borgara í Reykjavík,

Kristín S. Pjetursdóttir.