Í upphafi nýrrar ljóðabókar Gyrðis Elíassonar, Nokkur orð um kulnun sólar, dregur hann upp mynd á ferðalagi um hálendið og skáletrar til skýringar: „Smáskilaboð til Kristjáns Fjallaskálds“: Vegurinn inn á Sprengisand er ljós í fyrstu en...

Í upphafi nýrrar ljóðabókar Gyrðis Elíassonar, Nokkur orð um kulnun sólar, dregur hann upp mynd á ferðalagi um hálendið og skáletrar til skýringar: „Smáskilaboð til Kristjáns Fjallaskálds“:

Vegurinn inn á Sprengisand

er ljós í fyrstu

en verður svo hægt

og hægt dekkri

Þannig er líka vegurinn

að dauðanum

„Á Kaldadal“ nefnist vísan alkunna sem Gyrðir vísar til:

Yfir kaldan eyðisand

einn um nótt ég sveima;

nú er horfið Norðurland,

nú á ég hvergi heima.

Mörkin á milli lífs og dauða eru óljós fyrir skáldinu; þetta er sami vegurinn. Og kannski leitar það aldrei sterkar á mann en í óbyggðum. Þar eru endimörk mannlegs samfélags. Endalok Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns voru í Feneyjum, sem eru að sökkva í sæ. En dauðinn er víðar en í Feneyjum. Hrjóstrug náttúran á norðurhjaranum eirir engum. Í því faðmlagi getur sálin myrkvast, eins og ljóðabrotið ber með sér:

Í tjaldi við Drekagil

vakna ég um miðja nótt

af þungum draumi

inn í annan enn þyngri

(sem er lífið sjálft)

Enn leitar Gyrðir á kunnuglegar slóðir í ljóðinu „Svartnætti í Langadal“. Og maður hlýtur að dást að þrákelkninni að fara um þvílíkan skuggadal til að sækja ljósið við leiðarendann, eins og höfundur vísunnar þjóðkunnu hefur ekki talið sér eftir:

Ætti ég ekki vífaval

von á þínum fundum,

leiðin eftir Langadal

löng mér þætti stundum.

En kvæði Gyrðis eru ekki aðeins myrk; þau eru öðrum þræði kómísk og tilþrifin minna stundum á Þórarin Eldjárn. Freistandi er að álykta að ljóðið „Undur í Þistilfirði“ vísi til frægrar fyrirsagnar úr Íslendingi: „Negri í Þistilfirði“. Og svo er það hrossaflugan. Þegar systir mín bjó í Skotlandi fylltist heimilið af hrossaflugum, svo henni varð nóg um, en skoskt vinafólk hennar sagði hughreystandi: „Þetta er vorboði!“ Í Nútímamanninum má greina vissa aðdáun hjá Gyrði á flugum sem eru vinsælar hjá Skotum:

Ég gæti þegið

leiðbeiningar

í hugleiðslutækni

hrossaflugunnar.

Pétur Blöndal