Jólaboð Dave, Christine, Shana og Robin nutu matarins í boði Önnu Maríu Geirsdóttur á aðfangadagskvöld.
Jólaboð Dave, Christine, Shana og Robin nutu matarins í boði Önnu Maríu Geirsdóttur á aðfangadagskvöld. — Ljósmynd/Anna María Geirsdóttir
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is „Það eru aldrei hefðbundin jól hjá mér,“ segir Anna María Geirsdóttir myndlistarkennari, sem bauð fjórum gestum frá Simbabve að borða með sér mat á aðfangadagskvöld.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

„Það eru aldrei hefðbundin jól hjá mér,“ segir Anna María Geirsdóttir myndlistarkennari, sem bauð fjórum gestum frá Simbabve að borða með sér mat á aðfangadagskvöld. Þrjá af þessum gestum hafði hún aldrei séð áður.

Í huga flestra snúast jólin um að vera heima í faðmi fjölskyldunnar og borða góðan mat. Það eru hins vegar ekki allir sem geta verið heima um jólin og sumir sækjast beinlínis eftir því að lenda í ævintýri um jólin.

Shana og Robin Watermeyer hafa dvalist á Íslandi í nokkrar vikur. Þau eru ættuð frá Simbabve, en hafa búið í London sl. níu ár. Robin fékk vinnu hjá tölvufyrirtækinu CCP og hóf störf á Íslandi í vetur. Shana konan hans kom til Íslands fyrir einum mánuði. Fyrir þeim lá að halda saman jól í framandi landi. Vinir þeirra Dave og Christine (sem einnig eru ættuð frá Simbabve) komu hins vegar í heimsókn til að fagna jólum með þeim á Íslandi.

Anna María kynntist móður Shönu þegar þær stunduðu saman meistaranám í myndlist á Englandi í fyrra. Þegar Anna María frétti að Shana væri á leið til Íslands dreif hún í að bjóða þeim í mat á aðfangadag. Hún þekkti Shönu lítillega en hin þrjú hafði hún aldrei hitt.

Oft með finnska skiptinema

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Anna María býður ferðalöngum að halda með sér jól. Hún er ættuð frá Finnlandi og hefur oft boðið finnskum skiptinemum að borða með sér jólamatinn.

Anna María segir að það sé reyndar ekki alveg nákvæmt að segja að hún bjóði gestum heim til sín. Hið rétta sé að hún bjóði gestum heim til móður sinnar, Maritu Garðarsson. Þessi jólin hafi verið boðið upp á hefðbundinn finnskan jólamat, saltaða skinku, ofnbakaða kartöflustöppu, ofnbakaða gulrótastöppu og í forrétt var boðið upp á síld og snafs.

„Annars er mér sama hvað er í matinn. Aðalatriðið er að hann sé góður,“ sagði Anna María sem sagði að jólin hefðu verið mjög góð. Gestirnir frá Simbabve hefðu verið skemmtilegir og það hefðu átt sér stað áhugaverðar umræður við matarborðið.

Skemmtilegt ævintýri að vera á Íslandi

„Þetta var yndislegt kvöld. Við erum nýflutt til landsins, en fengum vini okkar í heimsókn. Það var ánægjulegt að njóta jóla með vinum og fá boð um að borða jólamat með íslenskri fjölskyldu,“ sagði Shana Watermeyer þegar hún var spurð hvernig væri að dvelja á Íslandi um jólin.

Shana og Robin, maður hennar, hafa ferðast talsvert um Reykjavík og nágrannasveitir um jólin ásamt vinum sínum og notið þess að borða góðan mat. „Það er kalt en gaman,“ sagði Shana.

Shana og vinir hennar ólust upp í Simbabve, en þar fer hiti sjaldan niður fyrir 18 gráður yfir vetrartímann. „Við erum ekki vön kulda og myrkri um jólin. Sólarlagið hér er fallegt og það er skemmtilegt ævintýri að vera hér.“