Sigrún Haraldsdóttir yrkir á jólum: Lífið vil ég ljósum orðum lofa og mæra alvaldinum ótal þakkir einlæg færa fyrir það að finna til og fagna og gráta þakka vil ég þyt í greinum þresti káta fyrir regnið, ferska vinda frost og þíðu ljósa morgna, liti...

Sigrún Haraldsdóttir yrkir á jólum:

Lífið vil ég ljósum orðum

lofa og mæra

alvaldinum ótal þakkir

einlæg færa

fyrir það að finna til og

fagna og gráta

þakka vil ég þyt í greinum

þresti káta

fyrir regnið, ferska vinda

frost og þíðu

ljósa morgna, liti himins

logn og blíðu

gráan mosa, gróna ása

grösin valla

vonir, drauma, vökustundir

veröld alla

stillu nætur, sterkar kenndir

stjörnubjarma

mánaskinið, mjúkar varir

mennska arma

fyrir vinar heita hönd í

hendi minni

allt sem góður guð mér léð´ af

gæsku sinni.

Þá Kristbjörg Steingrímsdóttir:

Skammdegið hopar hækkar lággeng sól

hrekur á burtu langnættisins skugga,

annríki mæddur heimur heldur jól

hátíðarljósin skína í hverjum glugga.

Gefðu þér tíma til að staldra við

taktu þér næðisstund og þú munt finna

einlæga gleði, hljóðan helgifrið

og hreinan fögnuð bernskujóla þinna.