Kröfuhafar Bönkunum er skylt að upplýsa á sex mánaða fresti um fimmtíu stærstu samþykktu kröfuhafana sem eiga kröfur í fleiri en einum banka.
Kröfuhafar Bönkunum er skylt að upplýsa á sex mánaða fresti um fimmtíu stærstu samþykktu kröfuhafana sem eiga kröfur í fleiri en einum banka. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkeppniseftirlitið telur nauðsynlegt að „samkeppnislegt sjálfstæði“ Íslandsbanka og Arion-banka verði tryggt. Það er forsendan fyrir því að heimila yfirtöku kröfuhafa á bönkunum tveimur.

Eftir Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt yfirtöku skilanefndar Kaupþings á Arion-banka annars vegar og yfirtöku skilanefndar Glitnis á Íslandsbanka hins vegar. Þó eru yfirtökunum í báðum tilfellum sett ákveðin skilyrði sem er ætlað að tryggja „samkeppnislegt sjálfstæði“ bankanna eins og það er orðað í úrskurðunum sem voru birtir á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins á Þorláksmessu.

Stjórnarseta skilyrt

Í báðum tilfellum er Arion og Íslandsbanka gert að skilyrða hverjir megi sitja í stjórn bankanna. Eins og fram kemur í úrskurðunum tveimur mega þeir ekki hafa tengsl við aðra viðskiptabanka og sparisjóði sem starfa á sama markaði og Arion og Íslandsbanki. Þetta gildir jafnframt um þá sem fara með yfirráð yfir öðrum viðskiptabönkum og sparisjóðum á Íslandi ásamt öðrum þeim „sem hafa verulegra hagsmuna að gæta af rekstri bæði Arion-banka og keppinauta félagsins, til dæmis 50 stærstu kröfuhafar sem eiga kröfur í fleiri en einum banka“. Báðum bönkunum er skylt að upplýsa á sex mánaða fresti um fimmtíu stærstu samþykktu kröfuhafana sem eiga kröfur í fleiri en einum banka. Jafnframt er bönkunum gert skylt að upplýsa um breytingar á eignarhaldi bankanna. Sérstaklega er tekið fram í úrskurðunum tveimur að þessar takmarkanir séu settar til þess að ekki þurfi að þurfi að ógilda samrunana tvo.

Óháður ef ekki starfsmaður eða stjórnarmaður

Samkvæmt úrskurði Samkeppniseftirlitsins telst stjórnarmaður því óháður í þessum tveimur tilvikum ef hann er ekki starfsmaður eða stjórnarmaður hjá þeim aðilum sem kveðið er á um. Hið sama gildir ef hann er ekki maki stjórnarmanns eða stjórnanda hjá ofangreindum aðilum, skyldur þeim í beinan legg eða fyrsta legg til hliðar. Einnig telst stjórnarmaður óháður ef hann er ekki verulega háður framangreindum aðilum í störfum sínum. Þeir sem t.d. sinna reglubundið hagsmunagæslu og/eða ráðgjafarstöfum fyrir framangreinda aðila teljast vera verulega háðir. Ennfremur kemur fram í úrskurðunum tveimur að stjórnarmenn í bönkunum skulu undirrita sérstaka yfirlýsingu um að þeir muni í stjórnarstörfum sínum fylgja ákvæðum samkeppnislaga og ekki grípa til neinna þeirra aðgerða sem gætu raskað samkeppnislegu sjálfstæði bankanna. Bönkunum er einnig gert skylt að tilkynna til Samkeppniseftirlitsins innan tveggja mánaða með hvaða hætti samkeppnislegt sjálfstæði Íslandsbanka annars vegar og Arion hins vegar verði tryggt.

Síðastnefnda atriðið vekur töluverða athygli þar sem margir hafa leitt að því líkum að Arion og Íslandsbanki muni á endanum renna saman í eina sæng. Óljósar fréttir hafa borist af tilburðum í þá átt eftir að kröfuhafar Glitnis eignuðust 95% af hlutafé Íslandsbanka og kröfuhafar Kaupþings eignuðust 87% hlut í Arion. Viðskiptablaðið sagði þó frá því skömmu fyrir jól að vogunarsjóðirnir sem verða stærstu eigendurnir í Arion og Íslandsbanka hefðu rætt um samruna í óformlegum viðræðum. Það sem rennir stoðum undir að eigendur bankanna hafi hug á að steypa þeim saman er samlegðaráhrifin sem af slíku fengjust auk þess sem það gæti verið skilvirk leið til þess að ná kostnaðarhlutfalli rekstrar beggja banka niður í viðunandi mörk. Það eykur ennfremur líkurnar á að til einhvers konar sameiningarhrinu komi á íslenska bankamarkaðnum að hið endurreista bankakerfi þykir of stórt miðað við horfurnar á umsvifum íslenska hagkerfisins á næstu árum.