[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fimmta mark fyrir Reading í ensku 1. deildinni í knattspyrnu í vetur þegar lið hans gerði jafntefli, 1:1, við Swansea á laugardaginn.
G ylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fimmta mark fyrir Reading í ensku 1. deildinni í knattspyrnu í vetur þegar lið hans gerði jafntefli, 1:1, við Swansea á laugardaginn. Markið var glæsilegt en Gylfi var felldur 25 metra frá marki Swansea á lokamínútu fyrri hálfleiks og dæmd aukaspyrna. Gylfi tók hana sjálfur og skrúfaði boltann glæsilega í vinstra markhornið niðri. Íslendingarnir þrír hjá Reading spiluðu allir allan leikinn.

Ármann Smári Björnsson var líka á skotskónum á öðrum degi jóla, þegar Hartlepool sótti Leeds heim á Elland Road í 2. deildinni. Eftir 25 mínútna leik kom Ármann liði Hartlepool yfir með þrumuskoti eftir hornspyrnu. Þetta var þriðja mark Hornfirðingsins í síðustu fimm leikjunum. Það dugði þó skammt því Leeds vann, 3:1, og styrkti enn stöðu sína á toppi deildarinnar. Hartlepool siglir tiltölulega lygnan sjó um miðja deild.

Hermann Hreiðarsson bar fyrirliðabandið hjá Portsmouth síðustu 15 mínúturnar í botnslag liðsins gegn West Ham á Upton Park á laugardaginn. Hann tók við bandinu þegar fyrirliðinn Michael Brown fór af velli. Hermann stóð fyrir sínu í leiknum en West Ham vann dýrmætan sigur, 2:0, og skildi Portsmouth eftir eitt á botninum.

Florent Malouda , franski kantmaðurinn hjá Chelsea , var rekinn af velli undir lokin þegar liðið gerði jafntefli, 0:0, við Birmingham á St. Andrews á laugardaginn. Hann verður því í banni í nágrannaslagnum gegn Fulham í dag.

Roberto Mancini stýrði Manchester City til sigurs í sínum fyrsta leik sem knattspyrnustjóri félagsins. City vann Stoke , 2:0, á laugardaginn þar sem Martin Petrov og Carlos Tévez skoruðu í fyrri hálfleiknum. Athygli vakti að Craig Bellamy var ekki í byrjunarliðinu en Mancini valdi Robinho í hans stað.

Steven Gerrard og Yossi Benayoun tryggðu Liverpool sigur á Wolves , 2:0, á Anfield á laugardaginn með mörkum í seinni hálfleiknum. Stephen Ward , varnarmaður Úlfanna, fékk rauða spjaldið snemma í seinni hálfleiknum á meðan staðan var markalaus.