— Morgunblaðið/Golli
Mannfólkið beitti ýmsum aðferðum við að koma sér áfram, nú eða afturábak, á ísnum á Rauðavatni í gær. Hann hefur nú verið mannheldur í nokkra daga og tví- og ferfætlingar hafa óspart nýtt sér það til ýmissa leikja og hreyfingar.

Mannfólkið beitti ýmsum aðferðum við að koma sér áfram, nú eða afturábak, á ísnum á Rauðavatni í gær. Hann hefur nú verið mannheldur í nokkra daga og tví- og ferfætlingar hafa óspart nýtt sér það til ýmissa leikja og hreyfingar.

Á ísnum hefur mátt sjá mannfólk, hunda, hesta og já, jafnvel bíla. Sem betur fer hafa bílstjórarnir þó haldið sig nærri bakkanum svo að ísinn brysti ekki undan þunga bifreiðarinnar.

Veður hefur verið með eindæmum gott á suðurhorni landsins, kyrrt, bjart og kalt, svo að það hefur borgað sig að klæða sig vel, þó að snjólaust sé næstum með öllu.

Norðlendingar hafa hins vegar ekki þurft að kvarta yfir snjóleysi og menn og málleysingjar hafa getað leikið sér þar í dúnmjúkum og hnéháum snjónum þessa jóladaga.

Í dag verða él víða um land og í kvöld er búist við að hvessi og fari að snjóa norðanlands.