Gísli Marteinn Baldursson
Gísli Marteinn Baldursson
Eftir Gísla Martein Baldursson: "Reykjavík stendur frammi fyrir sömu verkefnum og aðrar vestrænar borgir. Tryggja þarf skilvirkni og hagkvæmni borgarinnar og auka valfrelsi íbúa."

BORGIR eru mesta fjárfesting mannkynsins. Þar liggja nær öll þau auðæfi sem maðurinn hefur skapað á göngu sinni. Allt frá því fyrstu borgirnar urðu til í Mesópótamíu og Indusdalnum fyrir 6.000 árum hafa borgir verið vettvangur sigra og sorga mannkynsins en aldrei eins og nú. Síðustu aldirnar hefur straumur fólks legið úr sveit í borg með sívaxandi hraða, bæði hér á landi og annars staðar. Árið 1900 bjuggu aðeins 13% mannkyns í borgum heimsins, en árið 2007 sveiflaðist jafnvægið yfir því þá bjuggu í fyrsta sinn fleiri í borgum en í sveit. Því er spáð að árið 2050 muni þrír af hverjum fjórum íbúum heimsins búa í borgum. Nú þegar fæðast níu af hverjum 10 hugmyndum sem fá einkaleyfisskráningu í borgum og þar verða til nær öll þau verðmæti sem við sköpum.

Ísland er engin undantekning frá þessari þróun. Í Reykjavík býr þriðjungur Íslendinga, á stór-Reykjavíkursvæðinu býr vel yfir helmingur þjóðarinnar og því er spáð að þessi þróun haldi áfram. Þetta eina raunverulega borgarsvæði okkar skapar mikil verðmæti, en ber líka ábyrgð á mörgu því sem aflaga fer, svo sem stærsta hluta þeirrar mengunar sem frá okkur kemur.

Vaxandi fræðigrein

Það er mikið til vinnandi að það borgarumhverfi sem hýsa mun megnið af mannkyninu næstu aldirnar sé sem best úr garði gert. Mikill munur er á borgum heimsins, jafnvel nágrannaborgum sem ættu að hafa sömu möguleika á að bjóða íbúum sínum góð skilyrði. Sumar borgir bjóða hinsvegar upp á ótrúleg lífsgæði, á meðan aðrar eru hættulegar, skítugar og virðast ala á því versta í fari mannsins. Sú fræðigrein sem rannsakað hefur borgir og freistað þess að greina þetta umhverfi okkar skynsamlega kallast einu nafni borgarfræði. Þar er sótt í kenningar úr arkitektúr, skipulagsfræði, félagsfræði, hagfræði og mannkynssögu svo fátt eitt sé nefnt. Markmiðið er að reyna að skilja hvað gerir borgir góðar og hvað hefur farið úrskeiðis þegar þær reynast slæmar.

Reykjavík

Reykjavík er gott dæmi um borg sem blandar saman mörgu því besta í fari borga og öðru sem ekki er jafn vel heppnað. Borgin er örugg, hrein og fremur skilvirk. Hún býður íbúum sínum upp á mikil lífsgæði í formi þjónustu, útivistarsvæða og náttúru. Umferð gengur hér greiðlega miðað við margar aðrar borgir, almenningssamgöngur eru ágætar og veðurfar öfgalaust (ef við horfum á björtu hliðarnar). Þá er borgin falleg að mínu mati, þótt vissulega sé það smekksatriði, en gönguleiðin eftir Tjarnargötu er ein sú fallegasta sem borgarumhverfi getur boðið upp á; Tjörnin, ráðhúsið og miðborgin fyrir augunum, röð fallegra timburhúsa til vesturs og í austri rísa Þingholtin. Mörg úthverfa okkar eru einnig ákaflega vel heppnuð, með góða þjónustu og nálægð við náttúru.

En margt gæti verið betra í Reykjavík. Vegalengdir milli heimilis og vinnustaðar eru óþarflega langar fyrir borg sem ekki er stærri. Þúsundir þurfa að ferðast í hálftíma á hverjum degi til þess að komast til og frá vinnu. Þjónusta inni í hverfum þyrfti einnig að vera meiri, bæði fyrir börn og fullorðna, svo minnka megi „skutl og snatt“ sem hægt væri að afgreiða innan vel skipulagðra hverfa. Um leið myndi samfélagið innan hverfanna styrkjast og fólk njóta betur kosta þess að búa í borg. Margar byggingar sem risu á góðæristímanum voru óvandaðar og að mínu mati ekki fallegar. Þá mætti borgin standa sig betur við að vernda og kynna menningararfinn og stórmerkilega sögu borgarinnar.

Hjarta landsins

Þegar allt er tekið saman er gott að búa í Reykjavík, svo stolið sé frasa frá nágrönnum okkar. Í borginni slær hjarta landsins og það er skylda þeirra sem starfa í borgarmálum að tryggja að það hjarta dæli blóði um borgina alla, og til allra landsmanna. Krafa nýrrar kynslóðar borgarbarna verður að borgarumhverfið styrkist, byggðin þéttist og vegalendir styttist. Um leið verður þess krafist að strendur og önnur opin og græn svæði verði hrein og heilnæm. Sú krafa er ekki aðeins gerð í Reykjavík heldur í flestum vestrænum borgum sem glíma við sömu viðfangsefni og Reykjavík. Borgir í þeirri mynd sem við þekkjum þær verða heimili okkar næstu aldirnar, og það verður ærið verkefni að halda þeim skilvirkum, hagkvæmum og heilsusamlegum. Til þess þarf að vanda til verka og taka réttar ákvarðanir núna, því það sem við ákveðum nú og byggjum upp hefur áhrif á líf Reykvíkinga löngu eftir að við sem nú lifum erum horfin af vettvangi.

Höfundur er borgarfulltrúi og M.Sc. í borgarfræðum.