Wayne Rooney
Wayne Rooney
WAYNE Rooney kom heldur betur við sögu í gær þegar Manchester United lagði Hull City, 3:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Rooney skoraði fyrsta mark United og lagði upp hin tvö en átti jafnframt sök á marki Hull.

WAYNE Rooney kom heldur betur við sögu í gær þegar Manchester United lagði Hull City, 3:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Rooney skoraði fyrsta mark United og lagði upp hin tvö en átti jafnframt sök á marki Hull. Það kom eftir að slæm mistök hjá Rooney leiddu af sér vítaspyrnu en úr henni jafnaði Chris Fagan fyrir heimaliðið í hafnarborginni.

Rooney bætti heldur betur fyrir mistökin. Fyrst varð eitruð fyrirgjöf hans til þess að Andy Dawson sendi boltann í eigið mark og síðan lagði Rooney upp þriðja mark liðsins með glæsilegri sendingu á Dimitar Berbatov.

Manchester United er þar með áfram í öðru sæti deildarinnar og nú aðeins tveimur stigum á eftir Chelsea sem gerði jafntefli, 0:0, við Birmingham á útivelli á laugardaginn.

„Rooney ógnaði vörn Hull frá fyrstu mínútu til síðustu. Hans einu mistök í leiknum leiddu til þess að Hull skoraði en mér fannst hann frábær. Hann er með þessa meðfæddu löngun og þrá til að gera vel, og henni tapar hann aldrei. Rooney er sigurvegari, og tekur svona mistök meira inná sig en nokkur annar myndi gera. Hann bætti fyrir þau og það var aðalmálið. Þetta var erfiður leikur, Hull náði að stöðva flæðið í okkar leik með því að gefa okkur aldrei frið, og á heiður skilinn fyrir sína frammistöðu,“ sagði Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, eftir leikinn.

„Sem betur fer unnum við leikinn, annars held ég að stjórinn hefði ekki verið sérstaklega ánægður með mig. Þetta var óþægileg tilfinning þegar Hull jafnaði eftir mín mistök. Ég vildi ekki bregðast liðinu en það leit út fyrir það um tíma. Svona lagað gerist og okkur tókst að tryggja okkur sigurinn,“ sagði Rooney við fréttamenn að leik loknum. vs@mbl.is