Ólafur Helgi Runólfsson fæddist á Búðarfelli í Vestmannaeyjum 2. janúar 1932. Hann lést á Gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 7. desember sl.

Útför Ólafs fór fram frá Áskirkju 17. desember 2009.

Við kveðjum nú kæran frænda og þökkum honum samfylgdina. Við biðjum algóðan Guð að styrkja fjölskyldu hans.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem.)

Elsku Inga, Petra, Ester, Birgir og fjölskyldur, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Sóley, Smári, Guðný Stefanía

og fjölskyldur.

Ég man fyrst eftir Óla Run þegar við peyjarnir vorum að þvælast og komum stundum við í Nýja kompaníinu til að sníkja efni í boga og örvar. Þar var alltaf mikið fjör á verkstæðinu enda mannskapurinn léttur í betra lagi og ýmislegt látið fjúka. Við peyjarnir vorum stundum að velta einhverju fyrir okkur þegar skyndilega heyrðist „skot“ frá einhverjum kallanna eitt núll, svo kom „skot“ úr öðru horni annað „skot“ 2-1, var kallað, svo 2-2, þeir voru í stuði kallarnir, gáfu í skotin og gerðu þetta með stæl en mikið líf og fjör var alltaf ríkjandi á verkstæðinu hjá Nýja kompaníinu. En það var þessi stóri, glaðlegi og hlýi maður sem tók svo vel á móti okkur í hvert skipti sem við komum, „vantar ykkur eitthvað peyjar?“ var kallað og svo fylgdi einhver grallarabragur og athugasemdir sem kom öllum til að hlæja. Fyrstu kynnin af Óla Run voru hlýleg og skemmtileg, þau gáfu tóninn fyrir það sem síðar var góð vinátta.

Óli Run var hress og skemmtilegur, fagurkeri og vandvirkur maður með afar fallega rithönd. Alltaf vel klæddur, í gráum fötum, skyrtu og með bindi, teinréttur með vindilinn, bar sig hátt og vel og spókaði sig um Básaskersbryggjuna þegar Herjólfur kom í land, hann var alveg eins og póker. Það var oft galsi í'onum og hann fór oft mikinn þegar því var að skipta. Óli Run var fjölhæfur maður sem hugsaði vel um umhverfi sitt og það mátti sjá hvar Óli Run bjó á snyrtimennsku og smekkvísi.

Ólafur Runólfsson var stór og myndarlegur maður. Hann var svona eins og amerískur greifi, flottur í tauinu, sló um sig með vindil í munninum. Þá brá hann fyrir sig alslags slanguryrðum og frösum sem hann notaði mikið. Þá beit hann í vindilstubbinn út í öðru munnvikinu og lét móðan mása út um hitt munnvikið, og var með þennan fína gálgahúmor, skemmtilegar athugasemdir og gat verið drepfyndinn og undir mestu hlátrarsköllunum bætti hann við einni og einni athugasemd sem virkaði eins og bensín á eld. Þá gat hann sjálfur tottað vindilinn alvarlegur í bragði, án þess að stökkva svo mikið sem bros á vör, það var hluti af húmornum. Óli Run var skemmtilegur kall og mér leið vel í návist hans.

Ólafur var framkvæmdastjóri Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum til margra ára og ég var þar ritari í stjórninni í tæp 10 ár. Í störfum sínum hjá fyrirtækinu bar Ólafur hag fyrirtækisins, starfsmanna sinna og Eyjamanna fyrir brjósti og bar öll umgjörð útgerðarinnar, skrifstofunnar og afgreiðslunnar snyrtimennsku Ólafs gott vitni. Óli Run var nákvæmur maður og skráningar hans um ýmsa hluti í rekstrinum sem nauðsynlegt var að skrá, enda engar tölvur, farþegafjölda og þess háttar var ótrúlega vel og smekklega gert. Eftir veikindi síðustu ára hefur Ólafur barið nesti sitt, ég kveð góðan vin, fjölhæfan og skemmtilegan mann sem gaf lífinu lit og gleði.

Ólafur Runólfsson var borinn og barnfæddur Eyjapeyi frá Búðarfelli við Skólaveg. Hann var alla tíð mikill Eyjamaður í hjarta sínu og þar á hann stóra fjölskyldu, kæra vini mína, sem ég og fjölskylda mín vottum allri okkar dýpstu samúð.

Ásmundur Friðriksson.