Áslaug Agnarsdóttir „Þarna má sjá svo margt sem maður sér í bitastæðari og stærri verkum hans.“
Áslaug Agnarsdóttir „Þarna má sjá svo margt sem maður sér í bitastæðari og stærri verkum hans.“ — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur kolbrun@mbl.is Áslaug Agnarsdóttir er þýðandi bókarinnar Bernska eftir einn þekktasta rithöfund bókmenntasögunnar, Lev Tolstoj, en Hávallaútgáfan gefur bókina út í kilju.

Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

kolbrun@mbl.is

Áslaug Agnarsdóttir er þýðandi bókarinnar Bernska eftir einn þekktasta rithöfund bókmenntasögunnar, Lev Tolstoj, en Hávallaútgáfan gefur bókina út í kilju. Þetta er ekki fyrsta bókin sem Áslaug hefur þýtt úr rússnesku. Hún þýddi hina gríðarlega vinsælu bók Dauðann og mörgæsina eftir Andrej Kúrkov, um hægláta rithöfundinn Viktor og þunglyndu mörgæsina sem hann bjó með. Áslaug hefur auk þess þýtt smásögur eftir Gogol og Turgenev.

Frá fréttum í skáldskap

„Í menntaskóla fékk ég áhuga á 19. aldar rússneskum bókmenntum og las mikið af þeim,“ segir Áslaug. „Sá heimur sem Tolstoj, Dostojevskí, Tsjekhov og aðrir rússneskir höfundar lýsa höfðar mikið til mín. Ég las þessi verk á ensku en svo tók ég mig til, fór í háskólanám, tók próf í rússnesku og fékk síðan styrk til að vera einn vetur í Rússlandi. Fyrstu þýðingarverkefni mín úr rússnesku voru fyrir fréttastofu Sjónvarps. Á þeim tíma hugsaði ég oft um að það gæti verið gaman að þýða rússneskar bókmenntir, og mun skemmtilegra en að hlusta á rússneskar fréttir og þýða það sem menn segja þar. Þegar Snæbjörn Arngrímsson, þáverandi útgáfustjóri Bjarts, bað mig um að þýða Dauðann og mörgæsina þá tók ég því boði fegins hendi og mér fannst mjög skemmtilegt að þýða þá bók. Á þeim tíma var ég byrjuð að þýða Bernsku eftir Tolstoj og hélt áfram að vinna í þeirri þýðingu ásamt öðrum verkefnum. Svo ákvað ég á síðasta ári að nú væri nóg komið, nú yrði ég að ljúka við að þýða þessa bók.“

Vel skrifað æskuverk

Bernska er fyrsti hlutinn af þríleik sem byggist á æsku skáldsins. Verkið telst vera skáldsaga en persónur bókarinnar eiga sér flestar fyrirmyndir í fjölskyldu Tolstojs. Þegar Áslaug er spurð hvað henni þyki merkilegast við verkið segir hún: „Tolstoj var 23 ára þegar hann samdi þessa bók. Mér finnst aðdáunarvert hversu vel hún er skrifuð, af ekki eldri manni. Þarna má sjá svo margt sem maður sér í bitastæðari og stærri verkum hans. Hann er þegar byrjaður að velta fyrir sér mikilvægum spurningum og farinn að stunda sálfræðilega sjálfsrýni. Honum tekst að endurskapa heim barnsins og sýna hvernig barn upplifir lífið, en inn á milli birtist mat hins fullorðna á upplifunum barnsins. Þetta er afskaplega vel gert og heillandi.“

Áslaug ætlar að halda áfram að þýða rússnesk verk og hugleiðir nú að þýða bók númer tvö í þessum þríleik Tolstojs.

Rússneskur skáldjöfur

Lev Tolstoj, einn frægasti rithöfundur bókmenntasögunnar, fæddist árið 1828 og lést í hárri elli árið 1910. Þekktustu verk hans eru Stríð og friður, sem lýsir lífi Rússa á árum Napóleonsstyrjaldanna, og hin harmræna Anna Karenina sem fjallar um ógæfusamar ástir og ill örlög aðalpersónunnar.

Tolstoj aðhylltist kristilegan og siðferðilegan hreinleika og gekk ansi langt í þeim lífsháttum sínum. Þetta gerði meðal annars að verkum að hjónaband hans og eiginkonu hans Sonju varð með nokkrum ósköpum, og er þá vægt til orða tekið. Friðarkenningar Tolstoj höfðu mikil áhrif á Gandhi og Martin Luther King.