Friðjón Þórðarson, fyrrverandi ráðherra og sýslumaður, fæddist á Breiðabólsstað á Fellsströnd 5. febrúar 1923. Hann lést á Landakoti 14. desember 2009, 86 ára að aldri.

Útför Friðjóns fór fram frá Hallgrímskirkju 22. desember.

Kveðja frá Breiðafjarðarnefnd

Friðjón Þórðarson var héraðshöfðingi í Dölum og andlát hans héraðsbrestur mikill fyrir Dalamenn. Fas hans var yfirvegað og hæverskt en ákveðið eins og höfðingja sæmdi. Friðjón lagði sig fram um að ljúka málum í sátt, helst þannig að samhljóða væri og mótatkvæðalaust. Hann var eigi að síður afar fylginn sér, ötull málafylgjumaður og ráðabruggari.

Breiðafjörður var Friðjóni mjög kær og lagði hann sig allan fram um að gera veg Breiðafjarðar og Breiðfirðinga sem mestan á öllum sviðum; sagan, menningin, náttúran, atvinnutækifærin og hvaðeina sem til framfara horfði í héraði var honum hugleikið.

Alþingi ályktaði árið 1978, að tillögu Friðjóns, „að skora á ríkisstjórn að stuðla hið fyrsta að því, að hið fjölþætta lífríki Breiðafjarðar verði kannað og verndað, eftir því sem þurfa þykir, í samráði við heimamenn og náttúruverndarsamtök“. Þarna voru lögð fyrstu drög að lögum sem árið 1995, sautján árum seinna, voru samþykkt á Alþingi sem lög um vernd Breiðafjarðar. Friðjón gegndi formennsku í Breiðafjarðarnefnd frá upphafi og stýrði alls 90 stjórnarfundum, þeim síðasta í júní 2008, og ég átti því láni að fagna að taka þátt í þessum fundum sem fulltrúi Vestur-Barðstrendinga í nefndinni.

Breiðafjarðarnefnd var á ferð á Siglunesi á Barðaströnd í júlí 2005.

Rétt neðan bæjarstæðisins á Siglunesi stendur bautasteinn sem reistur var til minningar um síðustu ábúendur á Siglunesi þau Gísla Marteinsson og Guðnýju Gestsdóttur. Á hann eru rituð hin fornu áhrinsorð, sem húsfreyja nokkur á Siglunesi hafði um Siglunesvör eitt sinn er bóndi hennar var á sjó og snögg veðrabrigði urðu til hins verra, að „sá sem frá Siglunesi rær – landi nær“.

Trú Breiðfirðinga á þessi orð var mikil, og algengt var að menn úr Breiðafjarðareyjum gerðu sér för að Siglunesi og lentu þar áður en þeir lögðu af stað vestur á Brunna eða aðrar verstöðvar vestur í Víkum sem var algengt, sérstaklega á vorvertíð. Við lok heimsóknar Breiðafjarðarnefndar að Siglunesi ritaði Friðjón Þórðarson, formaður nefndarinnar, eftirfarandi kveðjuorð í gestabók Sigluness:

„Breiðafjarðarnefnd á vettvangsferð við vesturmörk á verndarsvæði Breiðafjarðar.

Sagt er hér um Siglunes

að sá er héðan rær

eftir góða útiveru

alltaf landi nær

Þó að hér sé aðeins eftir

ósköp lítill bær

þessi aldni átrúnaður

er mér hjartakær

Með bestu heillaóskum,

Friðjón Þórðarson.“

Þar Friðjón Þórðarson er genginn er skarð fyrir skildi. Innilegar samúðarkveðjur færi ég Guðlaugu og fjölskyldu Friðjóns heitins allri.

Þórólfur Halldórsson.

Nú er hún hljóðnuð – bassaröddin úr Leikbræðrum – söngkvartettinum ljúfa. Síðastur kvaddi Friðjón Þórðarson af þeim félögum, en auk hans voru í hópnum: Gunnar Einarsson og bræðurnir Ástvaldur og Torfi Magnússynir. Leiðir þeirra söngbræðra lágu fyrst saman í Breiðfirðingakórnum og á Jónsmessunni sumarið 1945 fór kórinn í frægðarför um Breiðafjarðarbyggðir og áði á heimleiðinni í fallegri brekku í Hnappadalnum á sunnanverðu Snæfellsnesi. Um þá stund skrifaði Ástvaldur í ársritið Breiðfirðing:

„Við fjórmenningarnir, síðar „Leikbræður,“ gengum afsíðis norður með ásnum þar sem við fundum kjarri vaxna brekku. Við vildum kanna hvort við gætum ekki sungið saman lag með fjórum röddum, en þarna sungum við okkar fyrsta samsöng sem voru tvö lög: Erla góða Erla og Ég vil elska mitt land“. Brekkunni gáfu þeir félagar nafn; Fagrabrekka.

Síðar gerðist Friðjón félagi í Karlakór Reykjavíkur og síðustu árin söng hann með eldri félögum kórsins. Á þeim vettvangi lágu aftur saman leiðir þeirra leikbræðra í söngnum og þá var stundum haldið vestur í Dali og sungið af lífsins list með hinum tónelsku Dalamönnum. Oft var svo ferðin eins og seta í skólastofu, þegar Friðjón settist við hljóðnemann, sagði gamansögur úr sínu gamla kjördæmi, nefndi hæð á hverju fjalli og lýsti heimilisfólki á bæjum með kostum sínum og kynjum. Og aldrei var farið svo framhjá Höfn í Melasveit, að Friðjón minnti ekki á kollega sinn; Halldór Einarsson sýslumann í Borgarfirði, sem Jónas Hallgrímsson kvaddi ásamt öðrum Íslendingum í Dýraskógi á Sjálandi vorið 1835 með kvæðinu: „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,“ sem þá var sungið fyrsta sinni. Halldór var þá að halda til Íslands og sýslumannssetrið var í Höfn.

Hér verður ekki gerð tilraun til að lýsa ferli Friðjóns sem embættismanns og stjórnmálamanns. Í mínum huga og sjálfsagt mjög margra var hann fyrst og síðast Dalamaður – trúr sínum uppruna og heimahögum til síðustu stundar. Og hann var íhaldsmaður og húmanisti í bestu merkingu þeirra orða. Með ljóðlist sinni og söngrödd gaf hann okkur ómældar ánægjustundir ásamt félögum sínum í Leikbræðrum og gefur enn.

Við eldri félagarnir í Karlakór Reykjavíkur kveðjum heiðursmanninn Friðjón Þórðarson með virðingu og þökk. Aðstandendur – innilegustu samúðaróskir.

Reynir Ingibjartsson

Fallinn er frá eftir stutta sjúkdómslegu höfðinginn Friðjón Þórðarson. Kynni okkar hófust í ársbyrjun 1970, þegar hann var sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og réð mig til sín sem fulltrúa strax að loknu lögfræðiprófi. Friðjón ók mér vestur á P-16, sem var Bronco jeppi, sem þá voru í hávegum hafðir. Á leiðinni fræddi hann mig um staðhætti og tengdi frásögn sína við fornsögur með eftirminnilegum hætti. Þegar við ókum um Mýrarnar benti hann á Eldborg á Mýrum og sagði hið fornkveðna, „þar var bærinn sem nú er borgin.“ Friðjón var þaulvanur bílstjóri og átti ekki í erfiðleikum með snjóskaflana í Kerlingarskarði og við komumst heilu og höldnu í Hólminn. Friðjón var mikið á ferðinni alla tíð og hafði ekið Volvobifreið sinni 416.000 km þegar henni var lagt.

Fulltrúastarfið á Snæfellsnesi var gott veganesti fyrir framtíðina og frá þeim tíma er margs að minnast. Á þessum tíma var starfssvið sýslumanns allt annað en nú er, því auk löggæslumála og dómstarfa, hafði sýslumaður sérstakt hlutverk á stjórnsýslusviði sem formaður sýslunefndar. Minnisstæður er sýslufundur þegar sýslunefndarmenn úr öllum hreppum sýslunnar komu saman til árlegs fundar, sem stóð í þrjá daga. Þá var mikið um að vera og sýslunefndarmenn margir mjög eftirminnilegir. Að kvöldi annars dags var efnt til fagnaðar á heimili sýslumannshjónanna, þar sem fluttar voru ræður, kastað fram vísum og íslensk sönglist í hávegum höfð og fjárlögin sungin. Á þeim tíma sem ég var fulltrúi Friðjóns á árunum 1970 og 1971 tókst með okkur vinátta sem síðan hefur haldist og má með sanni segja að hann hafi ekki sleppt af mér hendinni síðan. Þegar Friðjón varð öðru sinni sýslumaður Dalamanna, eftir að hann hætti á þingi, árið 1991, kom ég aftur til starfa fyrir hann um skeið. Á síðari árum höfum við átt ýmis konar samstarf, sem hefur farið vaxandi, en Friðjón var ótrúlegur eljumaður og vann stöðugt að menningarmálum á sínum heimaslóðum í Dalabyggð.

Eftir að Friðjón lét af þingmennsku 68 ára gamall var það af og frá að kominn væri tími til að slaka á. Hann var skipaður sýslumaður Dalasýslu öðru sinni. Mun það vera einsdæmi að sami maður sé skipaður til þess að gegna sama sýslumannsembættinu tvisvar. Þegar hann lét af því starfi sökum aldurs 70 ára var heldur ekki kominn tími til að slaka á. Nú fékk hann tíma til að vinna að hugðarefnum sínum varðandi menningu og sögu Dalabyggðar. Má þar sem dæmi nefna forgöngu hans um uppbyggingu Eiríksstaða í Haukadal, Leifsbúðar í Búðardal, og nú síðast Sturlustofu, sem honum var svo umhugað um að kæmist á laggirnar. Vann hann ötullega að því máli uns yfir lauk. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að afrakstur þeirrar vinnu hans líti dagsins ljós.

Friðjón Þórðarson átti langan og farsælan lífs- og starfsferil að baki. Það eru margir sem eiga honum mikið að þakka og sakna hans nú. Ég er einn þeirra. Við Ragna vottum eftirlifandi eiginkonu hans, börnum hans og fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar. Blessuð sé minning hans.

Eggert Óskarsson.

Við Friðjón Þórðarson áttum samtímis sæti á Alþingi í 24 ár. Við vorum samstarfsmenn og stundum vopnabræður í stjórnmálaátökum, ekki síst þegar við tókum báðir sæti í í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen í febrúar 1980. Samskipti okkar eiga því langa sögu.

Friðjón var prúður maður og hófsamur, hvort sem var í daglegri umgengni eða í ræðustól á Alþingi. Hann vandaði málflutning sinn og naut þar þekkingar sinnar og reynslu en honum var einnig tamt að tala gott íslenskt mál.

Hann var óáleitinn að fyrra bragði en fastur fyrir þegar á reyndi og kom mörgu því til leiðar sem hann barðist fyrir. Hann var vinsæll á Alþingi og átti öflugt fylgi kjósenda heima í héraði. Kom það skýrast í ljós með glæsilegri útkomu hans í prófkjöri á Vesturlandi, sem haldið var nokkru áður en hann lauk starfi sínu sem ráðherra.

Friðjón hafði listræna hæfileika, var ágætur hagyrðingur, lék á hljóðfæri, hafði mjúka og öfluga bassarödd og söng í kvartettinum Leikbræður á fyrri árum. Þessir hæfileikar nýttust ekki síst á gleðimótum, í góðra vina hópi og í vinnuferðum þingnefnda eða stofnana þar sem hann starfaði, en hann sat m.a. í bankaráði Búnaðarbankans í nálega aldarþriðjung. Hann hafði næmt auga fyrir því hvenær hentaði að setjast að hljóðfærinu og kalla fólk saman til að syngja.

Vesturland allt var honum kært. Á ferðum um þær byggðir léku honum á tungu urmull örnefna, hæð á fjöllum hvert sem litið var og sagnir um fólk og atburði frá fyrri öldum og síðari tímum. Fáum duldist þó að Dalirnir stóðu hans hjarta næst. Þar var hans fæðingarsveit, þar var hann lengi sýslumaður og gegndi fleiri störfum og þar dvaldi hann oft og lengi á síðustu árum.

Engan hef ég þekkt sem kunni Sturlungu og breiðfirskar fornsögur jafn vel og hann. Í þeim fræðum átti hann „sína“ menn sem hann hafði dálæti á og var því líkast sem hann hefði þekkt þá persónulega. Á síðustu árum starfaði hann mjög að menningarlegum og sögulegum verkefnum í sinni heimabyggð og er það merkur lokaþáttur á löngu og farsælu ævistarfi.

Nú er hann fluttur til nýrra heimkynna. Þar hygg ég að hafi beðið vinir í varpa. Ég flyt honum þakkir fyrir langt og gott samstarf. Við Helga færum eiginkonu hans, börnum hans og fjölskyldu allri einlægar samúðarkveðjur.

Pálmi Jónsson.