[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur annaei@mbl.is 16.160 MANNS voru á atvinnuleysisskrá 23. desember sl. og telur Vinnumálastofnun útlit fyrir að atvinnuleysi í desember mælist 8,4% að jafnaði.

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

16.160 MANNS voru á atvinnuleysisskrá 23. desember sl. og telur Vinnumálastofnun útlit fyrir að atvinnuleysi í desember mælist 8,4% að jafnaði. Í nóvember mældist atvinnuleysi 8% og hefur þróunin verið svipuð það sem af er desember.

Þótt atvinnuleysi hafi ekki náð sömu hæðum og í apríl er það mældist 9,1% hefur það engu að síður farið vaxandi á haustmánuðum. Jafnt ASÍ sem Vinnumálastofnun gera ráð fyrir að atvinnulausum fjölgi enn frekar á næsta ári. Búast megi við að atvinnuleysi fari yfir 10% á næstu mánuðum og að aukningin verði hraðari í janúar og febrúar en hún hefur verið undanfarið. Þar komi til samdráttur í verslun eftir jólin, minna sé um að vera í ferðaþjónustu á þeim árstíma og umsvif í byggingariðnaði séu í lágmarki. Ekkert bendir þó til stórfelldrar uppsagnahrinu á tímabilinu samkvæmt upplýsingum frá Karli Sigðurðssyni, sviðsstjóra vinnumálasviðs Vinnumálastofnunar. Fáar hópuppsagnir eigi einnig að koma til framkvæmda næstu mánuði. Í fréttabréfi ASÍ frá því um miðjan mánuðinn eru þó leiddar líkur að því að hugsanlega sé atvinnulífið nú að ganga inn í erfiðasta tímabil kreppunnar og spáir hagdeild sambandsins því að atvinnuástandið verði hvað verst á árunum 2010 og 2011.

Verði hátt í 10.000

Atvinnuleysi hefur aukist meira á landsbyggðinni en á höfðuborgarsvæðinu síðustu vikur og segir Vinnumálastofnun það í takt við hefðbundna þróun.

Ljóst þykir einnig að langtímaatvinnulausum mun fjölga á komandi mánuðum. Í lok síðasta mánaðar höfðu 7.400 manns verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur og höfðu um 2.500 af þeim hópi verið atvinnulausir í ár eða lengur. Verði ekki mikið um ráðningar úr röðum þeirra sem hafa verið á skrá í lengri tíma reiknast Vinnumálastofnun til að langtímaatvinnulausir verði orðnir hátt í 10.000 undir vorið. Hátt í 5.000 manns kunna þá að hafa verið atvinnulausir í ár eða lengur.

Staða fólks yfir 55 ára erfið

Búast má við að hlutfall eldra fólks í hópi þeirra sem hafa verið atvinnulausir um lengri tíma fari vaxandi. Enda reynist eldra fólki, sem missir vinnuna, oft erfiðara að fá vinnu aftur en þeim sem yngri eru. Staða þessa aldurshóps hefur líka farið versnandi það sem af er hausti og tók raunar að versna þegar í ágúst, þótt atvinnuleysi hafi almennt ekki tekið að aukast á ný eftir sumarið fyrr en í október.

Nóvember er líka sá mánuður þar sem hvað mest atvinnuleysi mældist hjá fólki yfir 55 ára aldri, á meðan hæsta hlutfall atvinnuleysis á þessu ári mældist á tímabilinu mars til maí hjá öðrum aldurshópum.

„Í byrjun hrunsins misstu þeir fyrst vinnuna sem höfðu minnstu ráðningarfestuna,“ segir Margrét Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun. Þetta eigi gjarnan við um yngra fólk, enda hafi þeir sem eldri eru oft unnið lengur á sama stað og séu með lengri uppsagnarfrest. „Þegar líður á fer eldra fólkið hins vegar líka að missa vinnuna og almennt reynist þessum hópi mun erfiðara að fá vinnu aftur.“ Því megi gera ráð fyrir að hlutfall þessa hóps eigi eftir að aukast meðal langtímaatvinnulausra.

Sé fólk síðan komið yfir sextugt reynist því mjög erfitt að komast aftur af atvinnuleysisskrá. Þetta segir Margrét vinnumiðlun Vinnumálastofnunar staðfesta. Ýmis úrræði og virkniaðgerðir séu engu að síður í boði. „Síðan má ekki gleyma því að mun fleiri ráðningar eiga sér stað í gegnum tengslanet einstaklingsins en vegna auglýstra starfa.“

Áhyggjuefni ef hópurinn verður útundan

Mikil áhersla hefur verið lögð á vandamálin sem langtímaatvinnuleysi yngra fólks skapar. Hætta er því á að eldra fólk í sömu sporum verði útundan. Þetta er mat Ingunnar Þorsteinsdóttur, hagfræðings hjá ASÍ. „Sagan hefur sýnt að þeim sem eru komnir yfir miðjan aldur hættir við að festast á atvinnuleysisskrá,“ segir hún og kveður þetta oft hlutfallslega stóran hóp þeirra sem hafa verið atvinnulausir um lengri tíma.

Eldra fólkið geti átt erfiðara með að fóta sig í nýjum störfum, þetta sé oft fólk sem hafi litla menntun og hafi verið í láglaunastörfum. Fordómar atvinnurekenda hafi einnig sitt að segja.

„Þetta er kynslóðin sem er alin upp við það að vinna sé dyggð og þegar slíkur einstaklingur lendir í því að vera sagt upp, jafnvel án nokkurrar ástæðu, er búið að brjóta hann niður og því getur hann átt erfitt með að fóta sig á ný,“ segir Ingunn.

Verðmæti sem glatast

Mikilvægt sé að fólk leiti sér stuðnings, jafnvel þótt álag á vinnumiðlunum sé mikið um þessar mundir. Rati þessi hópur ekki inn á vinnumarkaðinn á ný glatist ákveðin verðmæti. „Það eru verðmæti sem felast í þekkingu þeirra og reynslu.“