[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valskonur fögnuðu innilega í gær eftir öruggan sigur á Haukum í undanúrslitum deildabikarsins í handknattleik, 31:26. Gleðin var þó skammvinn því örfáum klukkustundum síðar hafði HSÍ dæmt Haukum 10:0 sigur vegna þátttöku Nínu K.

Valskonur fögnuðu innilega í gær eftir öruggan sigur á Haukum í undanúrslitum deildabikarsins í handknattleik, 31:26. Gleðin var þó skammvinn því örfáum klukkustundum síðar hafði HSÍ dæmt Haukum 10:0 sigur vegna þátttöku Nínu K. Björnsdóttur í leiknum en félagaskipti hennar í Val taka ekki gildi fyrr en um áramótin. Valsmenn eru eðlilega hundsvekktir enda töldu þeir sig hafa gert samkomulag við Hauka.

Eftir Sindra Sverrisson

sindris@mbl.is

„VIÐ héldum að þetta yrði í góðu lagi, annars hefðum við aldrei notað leikmanninn,“ sagði Stefán Arnarson þjálfari Vals í samtali við Morgunblaðið en hann kveðst hafa fengið vilyrði hjá Díönu Guðjónsdóttur þjálfara Hauka fyrir því að nota mætti leikmanninn. Það dugði þó skammt.

Díana staðfesti í samtali við Morgunblaðið að Valsmenn hefðu rætt við sig og að hún hefði þá sagst ekki myndu gera mál úr því þó Nína spilaði leikinn. Hún sagði samt undarlegt að menn vildu ekki fara eftir settum reglum og ljóst er að einhverjir forráðamenn Haukaliðsins hafa ekki viljað sætta sig við að Nína spilaði leikinn því kvörtun var lögð fram til HSÍ. Það er andstætt því sem Valsmenn reiknuðu með og má ætla að þeir telji sig ansi illa svikna af systurfélaginu enda titill og sæti í Evrópukeppni í húfi.

Að sögn Einars Þorvarðarsonar framkvæmdastjóra HSÍ eru reglur skýrar hvað félagaskipti varðar og verður Nína því ekki lögleg með liði Vals í nokkru móti fyrr en um áramótin. Valsmönnum gefst kostur á að kæra úrskurðinn en Stefán sagði vitaskuld engan tilgang í því fyrir Val.

Valur – Haukar (31:26) 0:10

Íþróttahúsið við Strandgötu, deildabikar kvenna, undanúrslit, sunnudaginn 27. desember 2009.

Gangur leiksins : 1:4, 2:6, 5:9, 9:9, 12:11, 15:14 , 20:16, 22:18, 26:18, 29:21, 31:24, 31:26 .

Mörk Vals : Hrafnhildur Skúladóttir 11, Brynja Steinsen 5, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 4, Ágústa Edda Björnsdóttir 2, Rebekka Skúladóttir 2, Íris Ásta Pétursdóttir 2, Nína K. Björnsdóttir 2, Soffía R. Gísladóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Arndís M. Erlingsdóttir 1.

Varin skot : Sunneva Einarsdóttir 17 (þar af 5 til mótherja).

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Hauka : Ramune Pekarskyte 10, Erna Þráinsdóttir 8, Ester Óskarsdóttir 3, Erla Eiríksdóttir 1, Þórunn Friðriksdóttir 1, Sandra Sigurjónsdóttir 1, Tatanja Zukovska 1, Tinna Barkardóttir 1.

Varin skot : G. Bryndís Jónsdóttir 18 (þar af 8 til mótherja).

Utan vallar : 2 mínútur.

Dómarar : Brynjar Einarsson og Vilbergur F. Sverrisson.

Áhorfendur : 280.