Helgi Helgason
Helgi Helgason
Eftir Helga Helgason: "Ég hef áður vitnað til þess að hafa lesið ummæli eftir lögreglustjóra Kaupmannahafnar um að Schengen sé himnaríki glæpamanna."

ÉG HEF verið að reyna að átta mig á því hvað það er sem réttlætti það að íslenskir ráðamenn ákváðu að taka þátt í Schengen. Við yfirferð á umræðu um þetta mál frá 1995 virðist mér sem ein veigamesta ástæðan sé tilfinningalegs eðlis. Nefnilega sú að varðveita í einhverri mynd það norræna vegabréfasamband sem norrænu ríkin höfðu þróað með sér í mörg ár. Íslenskum ráðamönnum virðist hafa óað við því að Íslendingar þyrftu að sýna vegabréf við komuna til annarra Norðurlanda. Þetta má greinilega lesa af ummælum þeirra sem gegndu embætti dómsmálaráðherra á þessu tímabili (1995-2001) s.s. Þorsteins Pálssonar og Sólveigar Pétursdóttur. Á málþingi SVS, Varðbergs og stjórnmálafræðiskorar HÍ í febrúar 2001 sagði Sólveig Pétursdóttir m.a.

„Með þátttöku er viðhaldið rúmlega 40 ára samstarfi Norðurlandanna, sem byggist á norræna vegabréfasambandinu.“

Svipuð ummæli viðhöfðu aðrir ráðamenn á þessum tímabili og má nefna Halldór Ásgrímsson þáv. utanríkisráðherra (mbl. 22. mars 2001) og Davíð Oddsson, þáv. forsætisráðherra. Reyndar eru ummæli Davíðs Oddssonar á ráðstefnu Lögfræðingafélags Íslands í október 2002 merkileg. Þar velti hann því upp hvort Schengen setti fullveldi Íslands skorður. Á sama fundi gefur hann í skyn, að mínu mati, að Schengen sé hugsanlega að snúast í andhverfu sína. En það er akkúrat það sem virðist hafa gerst þegar staðreyndir málsins eru skoðaðar hvort heldur nokkur ár aftur í tímann eða í dag. Kem ég að því rétt á eftir.

Hver eru þá öll hin rökin fyrir Schengen? Öll hin rökin? Þau eru nefnilega ekki svo mörg. Fyrir utan rökin um varðveislu norræna vegabréfasambandsins kem ég ekki auga á nema tvenn rök til viðbótar. Það er annars vegar „frjáls“ för um Evrópu (eins og hún hafi ekki verið frjáls fyrir Schengen) og loforð um gífurlega hert eftirlit með glæpamönnum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Rök þeirra sem aðhyllast Schengen virðast, frá því málið er kynnt þar til við göngum í Schengen, færast frá því að varðveita norrænt vegabréfasamband yfir í fullyrðingar um að með aðild muni nánast verða útilokað fyrir erlenda glæpahópa að ná hér fótfestu. Þetta á að gerast eins og áður segir með hertu eftirliti og samvinnu löggæslustofnana í Evrópu í gegnum svo kallað SIS kerfi sem er sameiginlegur gagnagrunnur. Í SIS kerfið eru skráðir eftirlýstir menn og óæskilegir einstaklingar. En það er athyglisvert að borgarar Schengen-landa geta aldrei verið skráðir óæskilegir (mbl. 20. mars. 01). Þetta stangast á við fullyrðingar ráðamanna um að alþjóðlegir glæpamenn séu skráðir óæskilegir við brottvísun úr landi. Skv. þessu er skilgreining ráðamanna Schengen-landanna á hvað sé alþjóðlegur glæpamaður, glæpamaður sem býr utan Schengen!

Fimm dögum áður en Ísland gengur í Schengen segir Smári Sigurðsson hjá ríkislögreglustjóra í viðtali við mbl. að hann hafi orðað það svo að með inngöngu hafi útlendingaeftirlitið færst frá Keflavík út á götur Reykjavíkur.

Ég hef áður vitnað til þess að hafa lesið ummæli eftir lögreglustjóra Kaupmannahafnar um að Schengen sé himnaríki glæpamanna því með þessu fyrirkomulagi sé ógjörningur að halda uppi eftirliti.

Ef skoðuð eru ummæli ráðherra og háttsettra embættismanna á Íslandi um Schengen er það athyglisvert að þeir virðast aldrei geta rökstutt almennilega af hverju það er svona gott að vera í Schengen. Rök þeirra eru slagorðakennd: „Margt hefur áunnist með Schengen-aðild“ segir Smári Sigurðsson í Fréttablaðinu 3. nóv. 2009. Rökin? Það er svo þægilegt að geta flett brotamanninum upp í SIS kerfinu eftir að hann hefur framið brotið! „Varnarbandalag gegn brotastarfsemi“ segir Sólveig Pétursdóttir í Morgunblaðinu 22. mars 2001. Rökin? Gífurlega efld löggæsla. Og hver er raunveruleikinn? Hvernig skyldu íslenskir ráðamenn hafa staðið að því að efla löggæsluna? Þeir hafa ekki staðið við það loforð, landamæraeftirlit og löggæsla er fjársvelt og landið stendur opið fyrir skipulögðum glæpahópum. Vegna Schengen hefur skipulögðum glæpahópum tekist að skjóta rótum á Íslandi.

Það sér hver heilvita maður að Schengen er ógn við íslenskt samfélag. Hagsmunir Íslands við inngöngu eru léttvægir þegar við berum þá saman við þá hagsmuni sem við höfum ekki af inngöngu. Við þurfum ekkert að deilda um það að niðurstaðan er í íslenskum fréttamiðlum á hverjum degi. Auknir glæpir, mansal, réttarkerfið og löggæsla lömuð. Fangelsin yfirfull.

Schengen hefur og snúist upp í andhverfu sína. Reyndar er það mitt mat að það hafi mátt vera ljóst frá upphafi að svo hlyti að fara. Að Schengen sé varnarbandalag gegn brotastarfsemi eru orðin tóm. Schengen er himnaríki skipulagðra glæpahópa og markmið ráðamanna um „frjálsa för“ milli landa er eins og klæðskerasniðið að skipulagðri glæpastarfsemi.

Íslendingar eiga að hætta þátttöku í Schengen. Við eigum að taka aftur upp virkt landamæraeftirlit og efla heimildir lögreglu til að vísa ætluðum glæpamönnum frá landinu í flugstöðinni. Þannig var þetta og virkaði vel.

Höfundur er stjórnmálafræðingur og á sæti í framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins.

Höf.: Helga Helgason