Guðmundur Þ. Guðmundsson
Guðmundur Þ. Guðmundsson
ÍSLENSKA landsliðið í handknattleik karla leikur fimm vináttuleiki áður en það stígur inn á stóra sviðið í Linz á Evrópumeistaramótinu 19. janúar. Tveir þessara leikja verða í Þýskalandi og tveir í Frakklandi en aðeins einn á heimavelli, hinn 13....

ÍSLENSKA landsliðið í handknattleik karla leikur fimm vináttuleiki áður en það stígur inn á stóra sviðið í Linz á Evrópumeistaramótinu 19. janúar. Tveir þessara leikja verða í Þýskalandi og tveir í Frakklandi en aðeins einn á heimavelli, hinn 13. janúar. Þá kemur landslið Portúgals í heimsókn en það kemur frá Svíþjóð hvar það leikur tvo vináttulandsleiki við sænska landsliðið 8. og 9. janúar. Portúgalar fara héðan til Lúxemborgar hvar þeir leika við heimamenn og Letta í undankeppni HM 16. og 17. janúar.

Íslenska landsliðið kemur saman til æfinga undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar hér á landi næsta mánudagsmorgun og verður tíminn nýttur vel og æft tvisvar á dag flesta þá daga sem landsliðshópurinn verður saman áður en hann heldur til Austurríkis.

Auk heimaleiksins við Portúgal í Laugardalshöll 13. janúar mætir íslenska landsliðið Þjóðverjum í Nürnberg 9. og 10. janúar. Haldið verður til Frakklands 15. janúar og leikið við Spánverja í París daginn eftir. Hinn 17. janúar leikur íslenska landsliðið lokaleik sinn fyrir EM annað hvort við Argentínu eða heims- og ólympíumeistara Frakka. Síðar sama dag verður flogið til Vínarborgar og þaðan haldið til Linz hvar flautað verður til leiks í fyrstu viðureign íslenska landsliðsins á EM hinn 19. janúar.

Fyrsti andstæðingur Íslands á EM verður Serbía. Því næst verður leikið við Austurríki tveimur dögum síðar og lokaleikur riðlakeppninnar verður við Dani hinn 23. janúar. Þrjár þjóðir af fjórum komast áfram í milliriðla. iben@mbl.is